„Það mikilvægasta sem kom úr þessum fundi Selenskí til Íslands, á Norðurlandaráðsfund, að þar var tilkynnt að Norðurlöndin styðji þessa svokölluðu siguráætlun hans. Þetta er það sem kemur fram í fréttatilkynningunni sem var gefin út af þessum Norðurlandaráðsfundi, sem öll nefndin skrifaði undir. […] Við greindum frá því hérna á Samstöðinni, en það var voða lítið fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum hvað var í þessum tvíhliða varnarsamningi sem Bjarni Benediktsson skrifaði undir með Selenskí. En á vefsíðu Selenskí var hægt að sjá samninginn. Þar kom fram hellingur sem hafði ekki komið fram.“
Þetta sagði Tjörvi Schiöth doktorsnemi í sagnfræði í viðtali við Rauða borðið sem sýnt var í gær. Þar reyndi hann að greina nánar frá því hvað Selenskí Úkraínuforseti var að biðja Norðurlöndin um þegar hann kom til landsins á dögunum. Hann segir að það hafi komið skýrar fram á vefsíðu Úkraínuforseta en í fjölmiðlum á Íslandi.
„Það er það sama hérna með þessa svokölluðu siguráætlun hans, ég hef bara séð það á mbl að Norðurlöndin styðji þessa svokölluðu siguráætlun hans. Það var ekki minnst á þetta í kvöldfréttum RÚV. En það er aldrei tekið fram hvað er í þessari siguráætlun hans,“ segir Tjörvi en í viðtalinu sem sjá má hér fyrir neðan fer hann nánar yfir akkúrat það, um hvað sú áætlun snýst í raun og veru.