„Það er mikil samstaða hjá forystunni og ég man ekki eftir svona mikilli samstöðu. Það kemur til út af því að allir samningar eru lausir og það er langt síðan það hefur gerst. Allavega ekki í minni kennslutíð. Að allur hópurinn sé að fara í verkfall. Það er sögulegur viðburður. Formenn félagana okkar eru mjög samstíga í þessu og sitja saman við samningaborðið, en það er búið að að vísa deilunni til ríkissáttasemjara, hefur hingað til ekki hjálpað til.“
Þetta segir Þórunn Sif Böðvarsdóttir, kennari á unglingastigi, í samtali við Rauða borðið en í kvöld verður rætt við kennara um komandi verkfall stéttarinnar.
Margt bendir til þess að þessi flækja verði ekki svo auðveldlega leyst, í það minnsta í bráð, því ofan á fyrrnefndar sögulegar aðstæður þá hafa komandi Alþingiskosningar einnig áhrif. Viðsemjendur kennara eru sveitarfélög en það virðist fyrirséð að þau munu þurfa að leita til ríkisins til að verða við kröfum kennara. Og þar er búið að skella í lás og ekki er harla ólíklegt að þó kosið verði eftir mánuð þá séu nokkrar vikur í viðbót sem það muni taka að mynda nýja ríkisstjórn.
„Sveitarfélögin eru fjársvelt. Þetta er stærsti útgjaldaliðurinn hjá þeim, skólarnir, og þeir eru bara svolítið vanmáttugir í þessum samningaviðræðum, því þeir geta ekki boðið það sem við viljum, því sem er búið að lofa okkur.“
Við Rauða borðið í kvöld verður nánar rætt við kennara um kjarabaráttu þeirra.