„Bjarni Benediktsson gæti þurft að íhuga hvort hann eigi að stíga til hliðar sem formaður fyrir kosningar,“ segir almannatengillinn Andrés Jónsson á Facebook en hann vekur athygli á því að samkvæmt nýrri könnun Maskínu þá myndu um 23 prósent Reykvíkinga kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til sveitarstjórna í dag meðan einungis um 12 prósent borgarbúa segjast ætla að kjósa flokkinn í komandi kosningum.
Andrés les úr þessum niðurstöðum að það sé fyrst og fremst Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sem valdi þessu gífurlega misræmi í fylgi. „ Bjarni sleit ríkisstjórninni fyrir 8 vikum og vildi að eigin sögn kanna hvort það væri ekki bara ríkisstjórnarsamstarfið sem væri óvinsælt hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Lítil viðspyrna flokksins í könnunum, sama hvað gengur á í kosningabaráttunni, hefur fyrir nokkru fært honum svarið. Þó líklega aldrei jafn skýrt og í tveimur nýbirtum könnunum Maskínu á fylgi flokkanna á landsvísu og í Reykjavík,“ segir Andrés og heldur áfram:
„Þar sést að Sjálfstæðisflokkurinn er með TVÖFALT MEIRA FYLGI meðal Reykvíkinga ef forystumaður flokksins er Hildur Björnsdóttir í framboði til borgarstjórnar heldur en ef forystumaðurinn er Bjarni Benediktsson í framboði til Alþingis.“