„Miðflokkurinn vill „gefa“ þjóðinni 100 milljarða króna sem hún á nú þegar og kynda með því verðbólgubálið en fá í staðinn ódýr atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta á breiðustu bökin um milljarða króna á ári, enda með þá yfirlýstu stefnu að vinna gegn jöfnuði og þar af leiðandi með ójöfnuði.“
Þetta skrifar Þórður Snær Júlíusson, fjölmiðlamaður og um tíma frambjóðandi Samfylkingarinnar, í pistli sem hann birtir á vef sínum. Þar hjólar Þórður í fyrrnefnda tvo flokka, Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, en hann segir þá „vilja kaupa sig til valda“. Um Miðflokkinn hefur hann að segja:
„Miðflokkurinn hefur til að mynda lofað að „gefa“ þjóðinni eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hlut sem þjóðin á nú reyndar þegar. Ábúðarfullur og landsþekktur frambjóðandi flokksins segir kjósendum frá því með þægilega dinner-tónlist undir í Facebook-auglýsingu að hver landsmaður muni fá andvirði hlutabréfa upp á 370 þúsund krónur í gjöf frá flokknum kjósi þeir hann.“
Þórður segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, hafa boðið þjóðinni álíka tilboð áður. „Þetta er ekki ný hugmynd. Árið 2017, þegar Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar bauð fyrst fram, ætlaði hann að gefa þjóðinni þriðjungshlut í Arion banka, eftir að ríkið hefði nýtt sér forkaupsrétt sinn í bankanum og keypt hann aftur af þáverandi meirihlutaeigendum. Forkaupsrétt sem ríkið átti reyndar ekkert,“ segir Þórður.
Á hinn boginn segir Þórður að Sjálfstæðisflokkurinn hafi rekið máttlausa baráttu síðustu vikur. Á móti kemur þó að flokksmenn hafa verið iðnir við að innleiða stefnu sína síðustu ár. Þórður skrifar:
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur, nokkuð óvænt, rekið alveg skelfilega andlausa kosningabaráttu. Hin vel þekkta kosningavél, sem allir hafa beðið eftir að trekkist í gang, virðist hálf máttvana. Flokkurinn hefur síðustu árin dundað sér við að innleiða ófjármagnaðar skattalækkanir upp á tugi milljarða króna. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna svart á hvítu að þær skattalækkanir hafa að uppistöðu nýst þeim tíu prósentum landsmanna sem þéna mest. […] Samhliða hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins valið að fjársvelta velferðarkerfin þannig að þau geta ekki sinnt þeirri almannaþjónustu sem þeim er ætlað að gera og reka ríkissjóð samt í umtalsverðum halla mörg ár í röð.“
Pistilinn má lesa í heild sinni hér.