„Litlu verður Vöggur feginn“, mælti Hróflur konungur, þegar Vöggur lýsti yfir ánægju sinni yfir hring sem konungur hafði gefið honum.
Á þetta minnir Marínó G. Njálsson efnahagsráðgjafi í færslu á facebook þar sem hann hendir grín að formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Ben.
Margir hafa gagnrýnt að sumir fjölmiðlar hafi lapið upp rökleysu Bjarna um „varnarsigur“ Sjálfstæðisflokksins þegar hin sögulega staðreynd er augljós, að undir hans forystu er útkoma flokksins í kosningum sú versta í heila öld, skýr skilaboð um að flokkurinn á ekkert erindi í ríkisstjórn. Þjóðin sem áður fylkti sér saman um breiðan Sjálfstæðisflokk hefur í nýafstöðnum kosningum gefið Bjarna rauða spjaldið, sem ekki kemur á óvart í ljósi þess að 45.000 Íslendingar afökkuðu þjónustu Bjarna fyrr á árinu og alvarleg hneykslismál hans fylla nú tuginn. Að mati íslensku þjóðarinnar er enginn stjórnmálamaður sem nú er uppi spilltari eða óvinsælli samkvæmt niðurstöðum fjölmargra skoðanakannana.
„Núna lýsir formaður þess stjórnmálaflokks, sem borið hefur höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka áratugum saman, að allt sé í himna lagi, þar sem flokkurinn sé næst stærstur. (Í Formannaspjalli á Stöð 2.) Fyrir tveimur dögum sagði hann að hann ætlaði að ná yfir 20% í kosningunum og allt annað væri óásættanlegt,“ segir Marinó.
„Ekki það, að ég verð ekki andvaka yfir mótsögnunum sem koma frá formanni Sjálfstæðisflokksins,“ bætir Marinó við. „En sé flokkurinn í vanda, þá er gott fyrsta skref að komast að því hvað er að. Ég held að leitun sé að flokksbundnum sjálfstæðismanni sem er sáttur við, að Sjálfstæðisflokkurinn sé með undir 20% fylgi og næst stærsti flokkur landsins. Mér finnst hins vegar metnaður formannsins ekki mikill, ef hann telur meintan varnarsigur vera góða niðurstöðu.“