Dagur Hjartarson segist játa sig sigraðan sem skáld en honum var hafnað um listamannalaun í gær þrát fyrir að síðasta bók hans hafi hlotið afspyrnu góða dóma og verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Dagur verður seint sakaður um léleg afköst, því þrátt fyrir að vera ekki orðinn fertugur, þá var síðasta bók hans var sú tíunda á ferlinum.
Svo má skilja Dag að bækurnar verði mögulega ekki fleiri. „Síðustu sjö árin hef ég fengið listamannalaun, í níu og sex mánuði á ári. Þetta hefur gert mér kleift að sinna skrifum samhliða því að ala upp tvö lítil börn og borga af húsnæðisláni. Fyrir það er ég mjög þakklátur. Í gær fékk ég hins vegar höfnun frá sjóðnum. Mér fannst umsóknin vönduð og sterk, henni fylgdi ítarleg greinargerð og tvö fylgiskjöl, sýnishorn upp á samtals 68 blaðsíður,“ segir Dagur á Facebook og bætir við að lokum:
„Síðasta skáldsaga mín fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, ég hef alltaf staðið skil á mínu. En hér verð ég að játa mig sigraðan: Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar, hvernig það er hugsað. Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja minnast skáldsins er bent á skáldsöguna Sporðdreka, sem var tíunda bók höfundar.“
Þess má geta að stjórn listamannalauna gaf sérstaklega út að nýjar áherslur væru hafðar við úthlutun að þessu sinni. Nú skyldi auka hlut nýliða. Dagur telst þó ekki sem slíkur þrátt fyrir ungan aldur, en hann er einungis 38 ára, því nýliði er skilgreindur sem sá sem aldrei hefur fengið listamannalaun.