Guðmundur Brynjólfsson djákni, skáld og rithöfundur bendir á að ekki sé sama Jón og séra Jón þegar kemur að því að finna pening hjá íslenska ríkinu í ólík verkefni.
Þannig hafi Salvör Nordal umboðsmaður barna sagt í frétt um síðustu helgi:
„Það hafa verið áætlanir frá 2015 um að byggja nýtt úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda og það úrræði er ekki enn komið á byggingarstig.“
Komið hefur nú á daginn að börn í bráðavanda hafa verið vistuð í afdönkuðum fangaklefum í Hafnarfirði.
„10 ár og ekkert hefur gerst, – jú annars það er búið að bæta starfsaðstöðuna á Alþingi heil ósköp, byggja skála og skrifstofur og Guð má vita hvað ekki,“ skrifar Guðmundur á facebook og bætir við:
„Já og talandi um Alþingi, þar á bæ voru snör handtök uppi þegar leysa þurfti úr ,,húsnæðisskorti“ Samfylkingarinnar á dögunum eftir að þingmenn höfðu gert sig að heldur meiri fíflum en venjulega þrefandi um hver ætti að vera í hvaða herbergi.“