Óhætt er að segja að fjölmiðlungar berist nú á banaspjótum. Eftir stjórnarskiptin hafa komið fram stórar spurningar um erindi Morgunblaðsins á fjölmiðlamarkaði. Mun Samstöðin efna til hópumræðu í kvöld um hvort Mogginn hafi fellt grímuna.
Skærur Ólafs Stephensen, fyrrum aðstoðarritstjóra Moggans, og Stefáns Einars Stefánssonar, blaðamanns á Mogganum lýsa hitanum ágætlega.
Ólafur gaf í skyn í færslu á facebook í morgun að gott væri ef Morgunblaðsmenn hefðu sýnt fyrrverandi formanni atvinnuveganefndar Alþingis eins mikið aðhald í búvörulagamálinu og blaðið sýnir nú Sigurjóni Þórðarsyni þingmanni Flokks fólksins í strandveiðum.
Þetta hefur farið mjög illa í Stefán Einar Stefánsson, blaðamann á Mogga. Hefur þráður Ólafs nánast logað stafnanna milli og enginn hörgull á fréttnæmum afhjúpunum.
„Ertu að saka blaðamenn Morgunblaðsins um að haga fréttaflutningi sínum eftir því hvað snýr að hagsmunum eigenda blaðsins? Nú spyr ég – byggir þú slíkar aðdróttanir á því hvernig þú hagaðir þínum störfum þegar þú varst blaðamaður og ritstjóri á sínum tíma,” spurði Stefán Ólaf, fyrrverandi aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, heldur illur.
Ólafur svaraði að hann hefði einmitt ekki gert það. Þess vegna hafi hann verið rekinn á sínum tíma.
Stefán siðfræðingur og blaðamaður æsist þá svo um munar:
„Þú varst rekinn vegna þess að mönnum datt ekki í hug að vera með Evrópustrump í brúnni,“ staðhæfir hann. Taka nokkrir upp þau ummæli í athugasemdum og segja þau staðfesta að á Mogganum séu menn reknir vegna skoðana sinna.
Rauða borðið hefst á Samstöðinni klukkan 20 í kvöld. Þeir sem vilja styrkja stöðina geta gerst áskrifendur hér: