„Það sem meira er, þeir skilja eftir sig þannig fjárlagagat að það er snúið að taka við búinu.“
Alþingi ræddi um stöðu raforku. Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins, lét sig ekki vanta. Sigurjón setti ofan í við stjórnarliða síðustu ára.
„Það er mjög sérstakt þegar hér koma háttvirtir þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum og kenna ríkisstjórnarmeirihluta sem er rétt að taka við keflinu um stöðu mála en þeir eru búnir að vera við völd frá árinu 2013 og skilja við þannig bú að þeim finnst rétt að koma hér upp í þetta ræðupúlt og kvarta og kveina,“ sagði Sigurjón og var hvergi nærri hættur.
„Það er ekki bara verið að tala um orkuinnviði og vegina. Fyrr í umræðunni var verið að ræða um að ekki væri verið að gera jarðgöng. Það sem meira er, frú forseti, þeir skilja eftir sig þannig fjárlagagat að það er snúið að taka við búinu. En við ætlum að gera það með því að ná endum saman. Það færi betur á því að háttvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar sýndu hér meiri sanngirni í umræðunni, játuðu það, sem þeir í og með að gera með því að leggja fram þessa umræðu, að þeir hafi skilað slæmu búi og kæmu með eitthvert gott innlegg, eitthvað jákvætt. Og ég er viss um að það er gott að eiga háttvirtan þingmann Jón Gunnarsson að í stjórnarandstöðunni, að hann muni leggja þessum málaflokki gott eitt til í atvinnuveganefnd og jafnvel jákvæðum breytingum í sjávarútvegi, og taka þeim tillögum sem stjórnin kemur með í orkumálum með jákvæðum hætti þannig að við byggjum upp orkuinnviði Íslands glæsilega.“