„Í gær tilkynnti samninganefnd Eflingar fulltrúum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um uppsögn kjarasamnings sem undirritaður var 2. október síðastliðinn. Þegar við undirrituðun samninginn var gert ráð fyrir því að sérstakur starfshópur, skipaður af þáverandi heilbrigðisráðherra, myndi vinna að og leggja fram tímasetta áætlun um hvernig ná skuli viðmiðum um lágmarksmönnun á hjúkrunarheimilum. Þrátt fyrir mikla vinnu og marga fundi tókst hópnum ekki að vinna þessa áætlun, eina afurð hópsins er minnisblað til ráðherra, merkt „til upplýsingar“. Því var niðurstaða samninganefndar Eflingar sú að segja upp samningnum,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
„Eins og þið kannski munið var helsta og mikilvægasta krafa okkar í Eflingu síðastliðið haust að úrbætur yrðu í allri mönnun þeirra hjúkrunarheimila sem að Eflingarfólk starfar á. Staðan er sú að vegna ónægrar mönnunar og vegna þess að mikil vöntun er á hjúkrunarfræðingum hefur Eflingar-fólk verið látið axla sífellt meiri ábyrgð og er oft á tíðum að sinna störfum sem að faglært heilbrigðisstarfsfólk ætti í raun að sinna. Varla þarf að taka fram að laun Eflingarfólks endurspegla alls ekki þessa miklu ábyrgð og þær erfiðu vinnuástæður sem ríkja á hjúkrunarheimilunum. En þrátt fyrir að kjörin séu slæm var það einróma afstaða samninganefndar Eflingar að víkja ekki frá þeirri launastefnu sem að mörkuð hafði verið í samningum á almenna markaðnum – áhersla okkar var fyrst og fremst á að bæta aðstæður með því að takast á við þann mikla vanda sem að viðvarandi undirmönnun hefur orsakað. Þetta tilkynntum við viðsemjendum okkar strax á fyrsta fundi síðasta sumar og vékum aldrei frá þeirri afstöðu. Við hefðum sannarlega getað sett fram kröfu um að risastór og sögulega vanmetin kvennastétt fengi sérstaka leiðréttingu – en niðurstaðan var eins og fyrr segir að fá SFV og ríkið til að axla ábyrgð og finna raunverulegar lausnir svo að Eflingarfólk þyrfti ekki lengur að búa við þann veruleika í störfum sínum að vera ávallt undirmannað og útkeyrt. Eins og fyrr segir hafa engar áætlanir um raunverulegar úrbætur í mönnun komið fram og því er staðan nú sú að þann 1. maí verða um það bil 2.300 Eflingarfélagar með lausa samninga og ekki undir friðarskyldu.
Við í samninganefnd Eflingar bundum miklar vonir við að raunhæf lausn yrði fundin á þeim grafalvarlega vanda sem að við sjáum þegar ástandið á hjúkrunarheimilunum er skoðað. Við vorum mjög glöð við undirritun samninganna og fögnuðum þegar að félagsfólk samþykkti þá. Ég var stolt af frábærri samninganefnd sem að stóð saman frá upphafi viðræðna til enda, stolt af því að fá að vinna með fólk sem að hefur svo ríkulega ábyrgðarkennd í störfum sínum og í raun gagnvart öllu samfélaginu. Það eru því mikil vonbrigði að svona hafi farið.
Nú förum við Eflingarfólk í að undirbúa næstu skref. Við munum fara aftur yfir kröfugerðina okkar – höfum tilkynnt viðsemjendum að hún sé enn í gildi. En þó með þeim fyrirvara að ljóst er að við ætlum að skoða vandlega nýja kjarasamninga opinberra laungreiðenda við kennarara og mögulega uppfæra launakröfur okkar í samræmi við þá. Ég er ekki viss um að ómissandi starfsfólk í undirstöðustörfum sé lengur tilbúið til að sætta sig við þær hóflegu launahækkanir sem að Efling hefur samið um í öllum samningum í yfirstandandi kjaralotu. Á fjögurra ára tímabili samningsins sem að fellur úr gildi 1. maí hefðu hækkanir Eflingarfólks sem starfar hjá SFV verið ríflega 18% – samið hefur verið við kennara um 24% hækkun yfir næstu fjögur ár. Opinberir laungreiðendur hafa mótað nýja kjarastefnu – Efling getur að sjálfsögðu ekki annað gert en rýnt stefnuna vandlega og skoðað hvað hún þýðir fyrir þá fjölmennu undirborguðu, undimönnuðu og útkeyrðu hópa Eflingar-fólks sem að halda hér öllum umönnunarkerfum uppi með þrotlausri vinnu.“