„Ég nenni ekki ræða ráðherrauppnámið innan Flokks fólksins en það liggur á hjarta mínu að segja nokkur orð um samskiptaerfiðleikana innan Sósíalistaflokksins,“ skrifar séra Bjarni Karlsson á Facebook. Og heldur áfram:
„Ég hef haft all nokkur kynni af Gunnari Smára á Samstöðinni umliðin ár. Það er ekki mitt að gefa neinum vottorð um heilindi, enda þarf þess ekki. Sannleikurinn rekur sig sjálfur sagði gamli kennarinn okkar margra, Jenna Jensdóttir. Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá sagði líka einhver.
Ef leitað væri ávaxta hjá Gunnari Smára þá mætti segja að honum hafi auðnaðst að móta víðóma samfélagsvettvang á Samstöðinni þar sem maður gengur undir manns hönd að spyrja, líkt og væri maður staddur á Rótarýfundi: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? – Það er eitthvað.
Samstöðin er fjölmiðill sem eftirlætur öðrum að hossa og hressa en heldur á lofti sanngirniskröfu sem ekki veitir af. Þar gengur Gunnar Smári fremstur meðal jafningja.
Þá vita öll að Sósíalistaflokkurinn væri ekki það sem hann er hefði Gunnars Smára ekki notið við. Ég vil að Sósíalistaflokkurinn eflist og dafni og gegni því ómissandi hlutverki að ónáða valdið sem safnar sjálfu sér. Valdið sem safnar sjálfu sér þekkist af því að það er sjálfumglatt og beturvitandi í fasi og það borgar sig alltaf, til skamms tíma litið, að fylgja því. Valdið sem dreifir sér skorar jafnan lægra í könnunum en er þó á endanum það vald sem verður öllum til góðs. Þess vegna þurfum við að eiga dugandi sósíalista í öllum flokkum. Í mínum huga er Gunnar Smári Egilsson þar í hópi hinna fremstu. Óþreytandi – og óþolandi fyrir vikið.
Gunnar Smári er pottþétt gallaður líkt og ég er t.d. sjálfur. Hann getur vel hafa hlaupið á sig eins og annað atorkufólk. Ég hef þó einkum kynnst hjá honum manngæsku. Ég hef séð hann sýna virðingu og samlíðun sem hefur glatt mig og bætt. Ég ber einlæga virðingu fyrir úthaldi hans og þeirri staðreynd, sem öllum er ljós, að hefði honum legið á hjarta að fénast hefði hann svo hæglega getað snúið sér að því. En hann hefur valið að verja lífi sínu og gáfum í að ónáða hrokann og sérgæskuna í samfélaginu og hlúa að almannahag.
Ég get vitaskuld ekkert dæmt um samskiptamál innan Sósíalistaflokksins en ég get með góðri samvisku fullyrt að íslenskt samfélag þarf á Gunnari Smára Egilssyni og öðrum öflugum sósíalistum að halda. Þess vegna bið ég og vona að innanbúðarfólki auðnist að leysa sín mál sem allra fyrst því baráttan fyrir hag almennings og allrar náttúru hefur aldrei verið brýnni.“