Stjórnarandstaðan á þingi virðist ekki ná að heilla landsmenn og myndi missa þingmann ef kosið yrði nú, samkvæmt júní-könnun Gallup. Ríkisstjórnin bætir við sig, eða öllu heldur Samfylkingin sem myndi bæta við sig átta þingmönnum, tæki einn af stjórnarandstöðunni, annan af Viðreisn og svo sex af Flokki fólksins. Þetta flug Samfylkingarinnar er sögulegt, flokkurinn hefur ekki mælst hærri hjá Gallup síðan 2009, stuttu eftir Hrun.
Þetta er staðan samkvæmt Gallup eins og hún birtist í fréttum Ríkissjónvarpsins:

Ef niðurstöður Júní-könnunar Gallup myndi þingheimur verða svona (innan sviga er breyting frá kosningunum í nóvember):
Ríkisstjórn:
Samfylkingin: 23 þingmenn (+8)
Viðreisn: 10 þingmenn (-1)
Flokkur fólksins: 4 þingmenn (-6)
Ríkisstjórn alls: 37 þingmaður (+1)
Stjórnarandstaða á þingi:
Sjálfstæðisflokkur: 15 þingmenn (+1)
Miðflokkurinn: 7 þingmenn (11)
Framsóknarflokkur: 4 þingmenn (-1)
Stjórnarandstaða á þingi alls: 26 þingmaður (-1)
Stjórnarandstaða utan þings:
Píratar: enginn þingmaður (óbreytt)
Sósíalistaflokkurinn: enginn þingmaður (óbreytt)
Vg: enginn þingmaður (óbreytt)
Samanlagt fylgi Pírata, Sósíalista og Vg er nú 10,6% samanlagt en var 9,3% í kosningunum. Þá var Sósíalistaflokkurinn stærri en hinir flokkarnir en nú eru Sósíalistar með sama fylgi og Vg og Píratar stærstir þessara þriggja dverga.
Augljóst er að átökin inna og í kringum Sósíalista hafa haft áhrif á fylgi flokksins. Í febrúar, áður en Karl Héðinn Kristjánsson birti opið bréf með gagnrýni á flokkinn, mældist fylgi Sósíalistaflokksins 6,2% en mælist nú 3,3%, helmingur fylgisins er farinn. Í febrúar mældist fylgi Pírata 3,6% og Vg 3,1% en fylgi þessara flokka er nú 4,1% og 3,2%. Í febrúar var fylgi Sósíalista helmingurinn af samanlögðu fylgi flokkanna en er í dag innan við þriðjungur, samanlagt fylgi hefur dregist nokkuð saman og hlutfall Sósíalistanna enn frekar.
Sósíalistar hafa ekki mæst með minna fylgi hjá Gallup síðan í október 2020, áður en flokkurinn bauð sig fram til þings.