Leikþáttur eftir Sigmund Davíð / „Það á nefnilega að keyra málið áfram og klára það á grundvelli blekkinga“

Miðflokkurinn verst af krafti öllu hugsanlegu um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Formaðurinn skrifar merka grein þar sem hann leggur út frá að starfsmaður utanríkisráðuneytisins hafi átt frumvæði að afhendingu skýrslunnar sem Helgi Seljan var með þegar hann spurði Guðlaug Þór um tilurð hennar. Þetta er þess virði að vera lesið:

„Nú er allt komið á fullt í samstilltu átaki um að reyna að telja landsmönnum trú um að Ísland sé í raun með virka umsókn að ESB þótt það sé það ekki (og það er enn júlí).

Þetta er gert með stórkostlegum útúrsnúningum sem aðeins gætu komið út úr samkrulli kerfisliða með ESB þráhyggju og spunaliðs ríkisstjórnarinnar.

Nú er línan þessi: „Það er að vísu rétt að Ísland er ekki umsóknarríki um aðild að ESB en Ísland er samt ríki með umsókn um aðild að ESB”.

Í þessu skyni hefur hópur embættismanna í utanríkisráðuneytinu (ESB sinnar allra ESB sinna) leitað dyrum og dyngjum í skjalasafni ráðuneytisins.

Þar fundu þeir minnisblað sem fyrrum diplómati hafði skrifað fyrir nokkrum árum og lýst skoðunum sínum á ESB-umsókninni. Vilji einhverra stóð til að þetta yrði birt á sínum tíma sem skýrsla og m.a.s. skrifaður inngangur fyrir ráðherrann.

Ekkert varð þó úr því og blöðin lágu eftir með öðrum vinnugögnum og hugmyndum embættismanna.

Þar til skjalið fannst og var talið hið gagnlegasta innlegg í það leikrit sem nú er skrifað og leikið jöfnum höndum.

Það var bara eitt vandamál, hvernig væri hægt að vekja athygli á þessu? Ekki var hægt að birta þetta sem formlegt skjal ráðuneytisins, enda lýsti það bara hugrenningum sem ekkert var gert með.

Úr varð atburðarás sem vart hefur getað atvikast öðruvísi en einhvern veginn svona:

Ráðuneytismaðurinn: „Heyrðu við erum með skýrslu hérna sem þú gætir haft áhuga á.”

Blaðamaður: „Fínt, sendu mér hana og ég skoða.”

R: „Nei sjáðu til, það er smá vandamál, þetta er þannig séð ekki formleg skýrsla, þetta er bara innanhússgagn. En þú gætir sent beiðni í krafti upplýsingalaga.”

B: „Um hvað á ég að spyrja?”

R: „Hvort það séu til einhver gögn í ráðuneytinu þar sem fjallað er um að umsóknin okkar, ég meina ESB umsóknin, gæti enn verið gild.”

B: „En neita ráðuneytin ekki alltaf að afhenda vinnugögn og segja að upplýsingalög nái ekki til þeirra?”

R: „Blessaður vertu, hafðu ekki áhyggjur af því, við græjum það. Svo ættir þú að fá Gulla fyrrverandi í viðtal og skella þessu á hann, án þess að láta hann vita fyrir fram.”

B: „En ætli hann muni nokkuð eftir að hafa séð þetta?”

R: „Nei, einmitt ekki. Ha! ha!”

B: „HA! HA! HA!”

Í frétt RÚV um málið var því svo haldið fram að „embættismenn innan ESB haf[i] ítrekað sagt að aðildarumsóknin sé enn í gildi.”

Hér er annars vegar vísað í talsmann hjá stækkunarstjóra ESB sem leiddur var fram á gang í viðtal í fyrstu ferð nýs utanríkisráðherra til Brussel.

Sá lét reyndar fylgja sögunni að þótt umsóknin gæti talist gild þyrfti framkvæmdastjórnin og e.t.v. öll aðildarríkin að ákveða næstu skref ef Ísland sækti um aftur.

Hins vegar er vísað í orð Úrsulu von der Leyen á frægum forskrifuðum blaðamannafundi sem haldin var um svipað leyti og ESB hótaði nýjum tollum á Ísland.

Í 10 ár, eða þar til hinn nýi utanríkisráðherra tók við og hóf Brusselferðir sínar, hafði ESB hins vegar ekki haldið þessu fram heldur þvert á móti.

Reyndar er einnig vísað í óljós orð fyrrum talsmanns hjá stækkunarstjóra frá 2015 (það er allt tínt til) um að ESB líti á Ísland sem umsóknarríki þrátt fyrir bréf íslenskra stjórnvalda.

Það voru einmitt slíkar vangaveltur sem urðu til þess að ég fór til Brussel og fundaði þar annars vegar með Jean-Claude Juncker (forvera Úrsulu) og Donald Tusk til að gera þeim ljóst að umsóknin hefði verið dregin til baka, hún væri dauð, farin veg allrar veraldar, kaput, zerstört og „ganz tot”.

Þetta skildu þeir og Ísland var tekið af öllum listum yfir umsóknarríki hvort sem þau voru með virka umsókn eða umsókn í bið.

Furðulegast af öllu er þó að ríkisstjórnin skuli vilja reyna að lífga við gömlu umsóknina að hætti Dr. Frankenstein.

Því skyldi þessi ríkisstjórn vilja bjóða landsmönnum upp á uppvakningsumsókn og fallast þar með á allt sem var búið að gefa eftir fyrir 12-15 árum?

Væntanlega af því að ráðherrar vita að það er ekkert til sem heitir varanlegar undanþágur en telja samt vænlegra að spyrja fólk hvort það vilji ekki bara „klára” umsóknina og „sjá hvað er í boði”, fremur en að spyrja hvort fólk vilji ganga í ESB.

Það á nefnilega að keyra málið áfram og klára það á grundvelli blekkinga.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí