Sautjánum árum eftir hrun, er ekki búið að gera það upp. Útbúin var skýrsla, en eina uppgjörið, sem hefur farið fram, var tilfærsla fjármuna frá heimilunum og litlum og meðal stórum fyrirtækjum til banka, sem fengur kröfur á þessa aðila með miklum afslætti. Sérkennilegt að senda reikninginn af misgjörðum forvera sinna á viðskiptavini.
Rétt er að rifja upp, að lánasöfn voru færð á milli gömlu bankanna og þeirra nýju að undangengnu mati á virði þeirra framkvæmt að hlutlausum og viðurkenndum aðilum. Nýju bankarnir töldu það mat vera of hátt og var hlustað á þá. Mat hins hlutlausa aðila átti að miða við góð efnahagsleg skilyrði í þjóðfélaginu, en ekki þá stöðu sem var, þegar lánasöfnin voru flutt yfir.
Fljótlega varð ljóst, að það stóð ekki annað til hjá nýju bönkunum, en að láta afsláttinn mynda hagnað hjá sér til framtíðar. Aldrei stóð til að láta afsláttinn renna til almennra viðskiptavina og það sem fór þá leið var nánast togað út úr bönkunum með töngum. Ríkisstjórninni tókst að ná hluta þessa hagnaðar til baka með samningum, sem fólu í sér að ríkissjóður eignaðist Íslandsbanka. Því má segja, að ríkissjóður hafi hirt afsláttinn sem átti að renna til viðskiptavina bankanna.
Þetta er hluti af því uppgjöri sem aldrei hefur farið fram. Enn hefur ekki verið rannsakað hvernig komið var fram við heimilin í yfirtöku eigna. Hvers vegna fólk sem missti eignir sínar á nauðungarsölu var elt áfram af kaupanda, þrátt fyrir að eignir hafi verið yfirteknar á miklu undirverði og lög segja, að við uppgjör eigi markaðsverð að gilda. Svo má ekki gleyma framkvæmd innheimtulaga sem á sér líklega hvergi sinn líka í heiminum.
Nú er í ríkisstjórn flokkur með þingmenn sem barist hafa fyrir gerð „rannsóknarskýrslu heimilanna“. Verður gerð hennar lokið fyrir 20 ára afmæli hrunsins?
Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.