Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði:
Formaður félags leikskólakennara er væntanlega í ágætum samskiptum við sitt bakland og veit að fólk þráir breytingar á brjálæðislega erfiðu og í raun oft á tíðum óboðlegu vinnuumhverfi. Hann skilur að það er hans hlutverk að tala máli félagsfólks og gerir það. RÚV hefur ekki haft við mig samband, þrátt fyrir að félagsfólk Eflingar sé lang stærsti hópur starfsfólks leikskóla borgarinnar. En féttastofa RÚV er soldið svoleiðis; þau tala ekki við Eflingu nema alveg tilneydd. Þau hafa ekki mikinn áhuga á þusinu í einhverri ófaglærðri kellingu um aðstæður einhverra verkamanna og kvenna og við getum svo sem alveg skilið það, hver nennir að hlusta á manneskju sem er bara með skitið grunnskólapróf?
Það er gott að formaður leikskólakennara haldi hagsmunum félagsfólks síns á lofti, það er jú hans hlutverk – jafn gott og það er undarlegt að forseti ASÍ og formaður BSRB taki bara samstundis undir fordæmingakórinn og krefjist þess að breytingatillögurnar verði allar dregnar til baka. Þau telja sig eflaust vera að gæta að hagsmunum vinnandi fólks en eftir því sem ég best veit hefur hvorki ASÍ né BSRB talað við starfsfólk leikskólanna um afstöðu þeirra til áforma borgarinnar. Þrátt fyrir að verkafólkið á leikskólum borgarinnar tilheyri Eflingu sem er í ASÍ , og að einnig sé starfsfólk leikskólanna meðlimir í Sameyki, sem er BSRB félag. Það finnst mér skrítið, svo vægt sé tekið til orða.