Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skrifaði í gær:
Góð heimsókn Mark Rutte framkvæmdastjóra NATO til Íslands í dag.
Eins og á fyrri fundum okkar kom fram fullur skilningur á sérstöðu Íslands innan NATO. Við erum herlaus þjóð en á sama tíma veigamikill hlekkur í vörnum bandalagsins á Norðurslóðum.
Á næstu árum ætlar ríkisstjórnin að styrkja innviði hér heima sem styðja við öryggi og varnir Íslands. Þannig vinnum við best með bandalagsríkjum okkar.
Í dag var greint frá 10 milljarða framkvæmdum sem NATO mun kosta í Reykjanesbæ við höfnina og olíubirgðastöðina í Helguvík. Það eru góðar fréttir. Ég kom því skýrt á framfæri á fundum okkar með Rutte í dag hvað svona fjárfestingar skipta miklu máli. Fjárfestingar í innviðum um allt Ísland – sem nýtast einnig í borgaralegum tilgangi.
Rutte tók einnig undir það með okkur að Ísland eigi að taka virkan þátt og veita forystu í öryggis- og varnarmálum á Norðurslóðum. Fókusinn færist norður í auknum mæli og við viljum vera leiðandi í okkar nærumhverfi.
Það er jákvætt að framkvæmdastjóri NATO hafi komið hingað og kynnt sér hvernig við gerum hlutina á Íslandi. Og hvar styrkleikar okkar í þessum málum liggja. Stundum hefur verið talað um ósökkvandi flugmóðurskip í þessu samhengi. En Rutte sagði að Ísland væri augu og eyru NATO í norðri. Það er rétt.
Við tökum hlutverki okkar alvarlega. Á óróatíma er brýnt að nálgast alþjóðamálin af ábyrgð og gott að vera í traustu bandalagi.