Kosið verður til sveitarstjórna eftir fimm mánuði slétta, 16. maí næstkomandi.
Vika er langur tími í pólitík, hvað þá fimm mánuðir.
Hins vegar er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað gæti gerst í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur fór yfir sviðið með Birni Þorláks á Samstöðinni við Rauða borðið í gærkvöld.
Ólafur ræddi hugsanlegt kosningabandalag „Sönnu-sósíalistanna“, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningum. Mikil áhrif gætu orðið af því framboði en Ólafur sagði ótímabært að spá fyrir um það. Stundum væri ekki samhengi milli vinsælda oddvita og fylgis við framboð. Nefndi hann nokkur dæmi þar um í ýmsar áttir.
Ólafur sagði aftur á móti að Viðreisn gæti að óbreyttu miðað við kannanir undanfarið náð lykilstöðu í vor að loknum kosningum um hvort hægri eða vinstri meirihluti verður skipaður.
Í nýlegum könnunum Maskínu og Gallups mælist Framsókn með 3-4% og hefur tapað um 15% frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðisflokkur mælist með 30-31% og Miðflokkur með 9-10%. Samanlagt bæta þessir flokkar við sig um 13% frá því síðast.
Sósíalistar, Píratar og VG mælast nú með 15-16% samanlagt og hafa sameiginlega tapað 7-8% frá því í síðustu borgarstjórnarkosningum. Samfylking mælist með 26-27% og hefur bætt við sig 6-7% frá því síðast.
Viðreisn mælist nú með 9-12% en fékk 5% síðast. Flokkur fólksins mælist með 3-4% en fékk 5% síðast.
Núverandi fimm meirihlutaflokkar fá samanlagt 44% hjá Maskínu en 47% hjá Gallup. Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsókn fá samanlagt 44% í báðum könnunum.
„Ef niðurstöður yrðu í þessa veru er líklegt að Viðreisn gæti ráðið því hvort mið-hægri eða mið-vinstri meirihluti verði myndaður eftir kosningar – þó fleiri samsetningar komi auðvitað til greina,“ segir Ólafur.
Þá ræddi Ólafur stöðu ríkisstjórnarinnar, málþóf, Flokk fólksins, Miðflokkinn og fleiri mál á landsvísu.
Þátturinn er hér: