Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar var í morgun viðstödd fundi stjórnenda Grundarheimilanna með ræstingafólki á Dvalarheimilinu Ási og starfsfólki í Þvottahúsi Grundarheimilanna í Hveragerði. Á þessum fundum var starfsfólkinu tilkynnt um að þeim væri sagt upp störfum.
Fram kom að Grundarheimilin hyggjast útvista umræddum störfum og verkefnum til einkaaðila. Í hópi starfsfólks sem missir vinnuna eru einstaklingar með allt að 34 ára starfsreynslu.
Á fundunum kom Sólveig Anna á framfæri mótmælum gegn ákvörðun Grundarheimilanna og hvatti til þess að hún yrði tekin til baka. Hún gagnrýndi að starfsfólk sem unnið hefur árum saman fyrir samsteypuna verði gert atvinnulaust á meðan störf þeirra séu þó ennþá unnin, en af fólki á verri kjörum og með verri réttindi, á vegum einkarekinna gróðafyrirtækja.
Starfsfólk tjáði stjórnendum furðu, reiði og óánægju. Athygli vakti hversu fátt var um svör þegar spurt var hvernig Grundarheimilin hygðust halda úti sama þjónustustigi og áður gagnvart vistmönnum þegar þrifum verður úthýst.
Samhugur og samstaða ríktu þó að endingu meðal starfsfólks. Efling býður öllum starfsmönnum sem verða fyrir uppsögnum til fundar klukkan 13 á þriðjudaginn næstkomandi á skrifstofum Eflingar í Hveragerði þar sem næstu skref verða metin.
Meðfylgjandi eru myndir af fundunum.
Frétt af vef Eflingar.