Stjórnarmyndunarviðræður á Þingvöllum í dag

Sjálfstæðisflokksmenn reyna að nýta sér ótta Vg og Framsóknar við kosningar til að þrýsta á að ríkisstjórnin fallist á herta stefnu þeirra gegn hælisleitendum og ákafari orkustefnu. Í dag funda stjórnarflokkarnir um þessi þessar kröfur Sjálfstæðisflokksins á Þingvöllum. Vg og Framsókn hafa engar kröfur uppi, aðeins um að ríkisstjórnin haldi og að ekki verði boðað til kosningar.

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur boðað frumvarp þar sem réttindi verða tekin af hælisleitendum, svo sem að þeir fái ekki skipaðan talsmann til að verja sig. Sjálfstæðisflokksmenn vilja nota yfirstandandi stjórnarkreppu, sem hófst með afsögn Bjarna Benediktssonar og tilkynningu hans um að allt væri óvíst um áframhaldandi stjórnarsamband, til að troða þessum breytingum ofan í kokið á þingflokki Vg.

Upptaktinn af þessu má sjá í afstöðu stjórnarflokkanna gagnvart stríðinu í Palestínu, en þar er enginn munur lengur á stefnu Sjálfstæðisflokksins og Vg. Vg hefur fallist á afgerandi stuðning við allar liðnar og komandi aðgerðir hinnar harðdrægu ríkisstjórnar Benjamin Netanyahu, sem nú stefnir á að innrás inn á Gaza sem flokka má undir ráðgert þjóðarmorð. Vg hefur þar með yfirgefið stuðning sinn við Palestínumenn svo hægt sé að halda lífi í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Annað sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eru virkjanir, en flokkur vill að fleiri ár séu virkjaðar bæði af Landsvirkjun og einkafyrirtækjum og að leyfisveitingum verði hraðað til einkafyrirtækja sem vilja reisa vindmyllugarða víða um land. Vg hefur hingað til verið náttúruverndarflokkur og staðið gegn frekari vatnsaflsvirkjunum, en Sjálfstæðisflokkurinn vill færa víglínuna til og fá Vg til að samþykkja stórt skref aftur á bak.

Takturinn í viðræðunum hefur verið sá að Sjálfstæðisflokkurinn krefst staðfestingar á stuðningi hinna flokkanna við sín mál á meðan Vg og Framsókn koma ekki með mikið að borðinu annað en viljann til forða kosningum. Að því leyti stendur Sjálfstæðisflokkurinn vel í stjórnarsamstarfinu þótt Bjarni hafi sagt af sér í vikunni, fyrir þær sömu sakir og almenningur krafði hann um afsögn fyrir einu og hálfu ári.

Barátta Bjarna fyrir því að hanga í embætti er sá einstaki þáttur sem mest hefur dregið niður stuðning við ríkisstjórnina og þá flokka sem að henni standa. Í mars 2022 var stuðningur við ríkisstjórnina 60,9% samkvæmt Gallup. Listinn yfir kaupendur í seinna útboði á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka birtist 6. apríl. Í lok þess mánaðar var stuðningurinn fallinn í 47,4% og hann hefur síðan fallið enn meira, hægt og bítandi. Hann er nú kominn niður í 35,1%. Af þeim sem studdu ríkisstjórnina fyrir Íslandsbankamálið eru um 58% eftir.
Og áhrif málsins á fylgi flokkanna er jafn afgerandi. Fyrir Íslandsbankahneykslið var Framsókn með 18,0% fylgi í Gallup og Vg með 11,4%. Nú mælist Framsókn með 8,1% en Vg með 5,7%. Traust fólks á þessum flokkum í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn er hrunið, saman hafa þeir fallið úr 29,4% niður í 13,8%. Á sama tíma hefur fall Sjálfstæðisflokksins verið minna. Fyrir Íslandsbankahneykslið var flokkurinn með 22,7% en mælist nú með 20,4%. Fyrir Íslandsbankahneykslið var fylgi Sjálfstæðisflokksins 44% af samanlögðu fylgi flokkanna í skoðanakönnunum en er í dag 50% af samanlögðu fylginu.

Þrátt fyrir mikið tap flokkanna á þrásetu Bjarna sér forysta Vg og Framsóknar það sem bjargarlínu að halda áfram stjórnarsamstarfinu og ganga að enn frekar að kröfum Sjálfstæðisflokksins. Þannig er hin sérstæða stjórnarkreppa á Íslandi í dag.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí