Það er ekki í fljótu bragði ljóst að nokkurn tíma á þessari öld hafi jafn margir mætt til mótmæla á Íslandi með jafn skömmum fyrirvara og á laugardag. Einhvern tíma undir hádegi birtust fundarboð Félagsins Ísland Palestína á Facebook: „Félagið Ísland-Palestína boðar til skyndimótmælagöngu fyrir utan utanríkisráðuneytið í dag, laugardaginn 28. október, klukkan 15.“
Hversu mörg hundruð mættu til mótmælanna og gengu frá ráðuneytinu niður Laugaveg á Austurvöll verður ekki reynt að meta hér. Sjón er sögu ríkari. Ljóst er í öllu falli að himinn og haf er á milli afstöðu stórs hluta íslensks almennings og þeirrar afstöðu stjórnvalda landsins sem birtist á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á föstudag, að ekki væri vert að taka undir kröfu um mannúðarhlé á Gasa nema endurtaka í sömu mund fordæmingu á árás Hamas á Ísrael þann 7. október sl.
Árás Hamas varð 1.400 manns að bana. Í þeim hernaðaraðgerðum sem Ísrael hóf beint í kjölfarið og hafa staðið yfir síðan hafa þegar þetta er ritað 8.000 manns verið drepnir, þar af yfir 3.000 börn. Á laugardag lýstu ísraelsk stjórnvöld því yfir að fyrsta stigi hernaðaraðgerðanna væri lokið og nú myndu þær færast í aukana, í yfirlýstu stríði landsins við samtökin Hamas, sem ísraelsk stjórnvöld segjast ætla að uppræta.
„Ceasefire now!“ hrópuðu mótmælendur á leið niður Laugaveg þann sama laugardag, „Free! Free Palestine!“ „Free! Free Gaza!“ – og á íslensku: „Frjáls! Frjáls Palestína!“ og „Ekki í okkar nafni!“ Þá heyrðist líka slagorðið „From the River to the Sea, Palestine will be Free!“
Þegar Félagið Ísland-Palestína deildi myndskeiði frá mótmælunum á Facebook fylgdu því einföld skilaboð: Fjölmenni mótmælti heigulshætti ríkisstjórnarinnar í dag.