Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra Íslands, vakti furðu á blaðamannafundi í Noregi þegar hann vildi ekki fallast á að nota orðið árás eða „attack“ um árás Ísraelshers á flóttamannabúðir á Gaza, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nú til rannsóknar sem stríðsglæp. Furðan sem birtist í norskum fjölmiðlum á ummælum ráðherrans þykir mörgum varpa óþægilegu ljósi á þann þvætting sem íbúar Íslands eru vanir frá ráðamönnum.
Blaðamannafundurinn fór fram á miðvikudag, sem hluti af dagskrá Norðurlandaráðsþings. Á fimmtudag skrifaði Smári McCarthy, fyrrverandi þingmaður Pírata, um uppákomuna á Facebook:
„Ísland er eitt fárra landa á Vesturlöndum sem hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu. En maðurinn sem gat ekki verið fjármálaráðherra án þess að selja föður sínum banka í eigu ríkisins; sem gat ekki setið í efnahags og viðskiptanefnd án þess að auðgast á hruninu; sem gat ekki setið af sér heimsfaraldur án þess að brjóta gegn sóttvarnarlögum; sem gat ekki komist hjá því að eiga fjárfestingarfélag í gegnum skattaskjól; sem gat bókstaflega ekki gert nokkuð á sínum pólitíska ferli án þess að brjóta trúnað við almenning og grafa undan lýðræðislegu umboði Alþingis, hann hefur náð á sínum stutta ferli sem utanríkisráðherra að gera Ísland ekki bara að athlægi í alþjóðamálum, heldur að bókstaflega réttlæta stríðsglæpi í samhengi við ólöglega og mannskæða innrás ríkis inn í annað ríki hvers tilvist og sjálfstæði er viðurkennd af Íslandi. Hvað þarf eiginlega að gerast til að hann hætti að fá að skaða Ísland?“