Helga Vala Helgadóttir, lögmaður, bendir á það í Facebook-færslu í dag, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, og ríkisstjórnin í heild, sem ákveði hvaða fjármunir séu „til reiðu fyrir heilbrigðisstofnanir landsins til að taka læknanema í starfsnám.“ Berglind Harpa Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt að íslenskir læknanemar erlendis komi að lokuðum dyrum á íslandi þegar kemur að verknámshluta námsins.
Helga Vala segir að þingmaðurinn ætti að beina athyglinni að því starfi „að því starfi sem nú er inni í fjárlaganefnd, því ég er viss um að það væri mun betra ef læknadeild Háskóla Íslands fengi heimild til að taka inn fleiri nemendur en 60 á ári í læknanám enda læknaskortur mikill og fer vaxandi.“ Helga Vala segir að það sé vegna þessarar miklu takmörkunar á aðgengi að læknanámi á Íslandi sem nemar sækja sér kostnaðarsamt nám utan landsteinanna. „Byrjum á að hleypa fleirum í námið hér,“ skrifar hún.
Kaldar kveðjur til læknanema erlendis
Læknanemar sem sækja nám sitt erlendis munu nú margir, ef ekki allir, koma að lokuðum dyrum þegar kemur að seinni hluta námsins, verknáminu. Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV í dag, mánudag. Þar segir að hópnum, tugum læknanema, hafi verið tilkynnt að nemar við læknadeild Háskóla Íslands hafi forgang að plássum í verknám við Landspítala, enda eigi sjúkrahúsið í formlegu samstarfi við HÍ. Framboð verknáms sé takmarkað og í þetta sinn hafi þau verið fullsetin áður en kom að nemum við aðra háskóla.
Berglind Harpa Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir þetta kaldar kveðjur til læknanema erlendis. Þingmaðurinn beindi fyrirspurn um málið til heilbrigðisráðherra í liðinni viku. Fyrirspurnin er í nokkrum liðum, og spyr þingmaðurinn meðal annars hvort ráðherra telji að læknaskortur sé viðvarandi á Íslandi, hvort ráðherra hyggist beina því til kennslusjúkrahúsa að Íslendingum sem nema læknisfræði við erlenda háskóla standi til boða að taka verknám hér á landi, og hvort til greina komi að koma upp hvötum til að fá íslenska læknanema við erlenda skóla til að snúa aftur til starfa á Íslandi að loknu námi, til dæmis með niðurfellingu hluta námslána.
Í viðtali við RÚV segir þingmaðurinn að ljóst sé að íslenskt menntakerfi geti eitt og sér ekki útskrifað nógu marga lækna til að vinna á læknaskorti.