Læsi íslenskra ungmenna hrakar, og sömu sögu er að segja um skilning á stærðfræði og raunvísindum. En þar með er ekki öll sagan sögð, úr nýbirtri PISA-könnun. Í samantekt Menntamálastofnunar á helstu niðurstöðum könnunarinnar á Íslandi má finna kafla um farsæld og líðan 15 ára barna. Þar eru bæði góðar fréttir og slæmar fréttir.
Yfir 80% finnst þau tilheyra
Í fyrsta lagi segjast 77% íslenskra nemenda eiga auðvelt með að eignast vini í skólanum og rúmlega 80% þeirra upplifa sig tilheyra í skólanum. Nú virðist það ef til vill ekki ýkja hátt hlutfall en það er þó yfir meðaltali OECD-ríkja, sem var 76% og 75% á þessum tveimur kvörðum. Að tæpum fimmtungi barna finnist þau ekki tilheyra í skólanum, 13% þeirra segist vera einmana þar og 14% utangarðs er þó umtalsverður fjöldi.
Samkvæmt þessum athugunum er upplifun drengja yfirleitt jákvæðari en stúlkna, og barna án erlends bakgrunns jákvæðari en barna sem teljast af fyrstu eða annari kynslóð innflytjenda.
Upplifun nemenda af kennurum er að sama skapi heldur jákvæðari en á Íslandi en bæði á Norðurlöndunum almennt og innan ríkja OECD að meðaltali. Þar snúast kynjahlutföllin við: hér á landi hafa stúlkur almennt jákvæðari upplifun af kennurum en drengir.
Lífsánægja barna dregst saman
Mörgum er hins vegar brugðið yfir að sjá niðurstöður þess hluta könnunarinnar sem snýst um lífsánægju. Heilt yfir eru börn ánægðari með líf sitt, samkvæmt könnuninni, á Íslandi en innan OECD-ríkja að meðaltali – meðalánægja íslenskra barna mældist 6,9 samanborið við 6,75 í aðildarríkjum stofnunarinnar.
Þegar tölurnar eru sundurliðaðar kemur þó dekkri mynd í ljós. Í samantektinni er miðað við að þau börn teljist ánægð með líf sitt sem fá að minnsta kosti 7 punkta af 10 á lífsánægjukvarða könnunarinnar. Samkvæmt því eru um 75% drengja á Íslandi ánægðir með lífið en aðeins um 57% stúlkna. Þar er þó ekki litið svo á að öll þau börn sem eftir standa séu óanægð með lífið, heldur teljast þau aðeins óánægð sem fá 4 eða færri punkta á sama kvarða: 23% stúlkna á móti 13% drengja.
Í samantektinni er tekið fram að sama mynstur megi sjá á öðrum Norðurlöndum „þar sem hlutfall drengja sem eru ánægðir með líf sitt er um 17–20% prósentustigum hærra en hlutfall stúlkna.“
Þá birtist einnig marktækur greinarmunur á lífsánægju barna eftir landfræðilegum uppruna: 67% barna með engan erlendan bakgrunn mældust ánægð með líf sitt, samkvæmt sama viðmiði og að ofan, og 64% barna af annarri kynslóð innflytjenda, en aðeins 57% barna af fyrstu kynslóð innflytjenda náðu sama marki í lífsánægju.
Í leit að jákvæðum vinkli
Á þessum tíu punkta kvarða lækkaði lífsánægja íslenskra barna aðeins hægar milli kannana nú en hún gerði milli síðustu kannana á undan. Það er að segja: frá 2015 til 2018 lækkaði hún um 0,46 stig en um 0,44 stig í þetta sinn, frá 2018 til 2022. Bjartsýnn túlkandi gæti því sagt sem svo að vísbendingar séu um að nokkuð hafi hægst á ánægjurýrnun eða gleðitapi íslenskra barna milli þessara tímabila. Að leiðin liggi hægar niður á við en fyrr. En niður liggur hún enn.
Heimild: PISA 2022: Helstu niðurstöður á Íslandi.