PISA-könnunin, samantekt: Aðeins í einu landi hrakaði lesskilningi meira milli kannana

Í aðeins einu landi af þeim 84 sem tóku þátt í nýbirtri PISA-könnun hrakaði læsi barna meira milli kannana en á Íslandi. Það var í Albaníu, þar hrakaði læsi um 47 stig, úr 405 í 358. Ísland er í öðru sæti á þeim vafasama lista, þar sem læsi hrakaði úr 474 stigum í 436. Frammistaða landsins í könnun ársins 2018 er í kringum meðallag OECD-ríkjanna nú, en samkvæmt þessari nýju mælingu er Ísland töluvert undir meðallagi. Á öllum sviðum hefur niðurstöðunum hrakað frá síðustu könnun, á Norðurlöndunum öllum. Ísland er þó eina Vestur-Evrópuríkið sem það á við um.

Um PISA könnunina

PISA-könnunin er framkvæmd á fjögurra ára fresti. Hún fór í þetta sinn fram í mars og apríl á síðasta ári og náði til 3.356 nemenda í 10. bekk úr 128 grunnskólum í landinu. Könnunin er með stöðluðu sniði sem lagt er fyrir nemendur í öllum aðildarríkjum OECD um sama leyti, til að niðurstöðurnar séu samanburðarhæfar.

Niðurstöður PISA-könnunarinnar sem birtar voru nú á þriðjudag verða ekki afgreiddar með hraði heldur krefjast ígrundunar og úrvinnslu sem vænta má að standi um hríð. Á þessu stigi er fátt að gera annað en að miðla þeim upplýsingum sem þar koma fram um stöðu mála. Hér verður farið yfir lykilniðurstöður könnunarinnar eins og þær birtast í samantekt Menntamálastofnunar.

Í stuttu máli standa íslenskir nemendur töluvert að baki jafnöldrum sínum innan samanburðarlandanna, á öllum þeim þremur sviðum sem könnunin nær til: í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi.

Á öllum Norðurlöndum dalaði stærðfræðilæsi milli kannana en öll standa þau þó framar Íslandi.

Undir meðallagi á öllum sviðum

Nánar til tekið er hlutfall þeirra nemenda sem býr yfir grunnhæfni í stærðfræðilæsi á Íslandi 66%, samanborið við 72% á Norðurlöndunum eða 69% innan OECD-ríkjanna í heild. Um leið og færri búa hér yfir grunnhæfni eru líka færri með afburðahæfni en annars staðar: 5% íslenskra nemenda, andspænis 8% á Norðurlöndunum og 9% innan OECD.

Sama á við um lesskilning: hlutfall nemenda með grunnhæfni í lesskilningi er 60% á Íslandi, samanborið við 74% bæði á Norðurlöndum og innan OECD-ríkjanna í heild. Hlutfall nemenda með afburðahæfni er hér aðeins 3%, samanborið við 7% í báðum samanburðarhópum.

Lesskilningur íslenskra barna jókst lítillega upp úr efnahagshruninu 2008 en tók síðan að hraka á ný.

Og í náttúruvísindum er sömu sögu að segja: 64% íslenskra nemenda búa þar yfir grunnhæfni, andspænis 75% á Norðurlöndunum og 76% innan ríkja OECD. Á sama tíma er hlutfall íslenskra nemenda með afburðahæfni á því sviði aðeins 2%, samanborið við 8% á Norðurlöndum og 7% innan OECD í heild.

Mismunur eftir kyni, búsetu og stétt

Nokkur kynjamunur er á íslensku niðurstöðunum, þó mestur í lesskilningi en hér hafa aðeins 53% drengja grunnhæfni í lesskilningi, samanborið við 68% stúlkna. Þá er stærðfræðilæsi lakara meðal íslenskra barna af erlendum uppruna en barna án erlends bakgrunns. Læsi í stærðfræði reynist einnig umtalsvert minna utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess.

Stéttbundinn munur á lesskilningi var nær enginn á Íslandi kringum aldamót en hefur síðan farið ört vaxandi – með stuttu hléi þó upp úr efnahagshruninu 2008.

Meiri munur reynist nú en fyrr á lesskilningi eftir félagslegum og efnahagslegum bakgrunni en áður. Um aldamót skar Ísland sig úr meðal Norðurlandanna að því leyti, hvað sá munur var lítill. Hann hefur síðan vaxið jafnt og þétt – með hléi þó, upp úr efnahagshruninu 2008. Frá því 2012 hefur þessi stéttamunur hins vegar rokið óslitið upp og er nú sambærilegur við Noreg, Danmörk og Finnland. Í Svíþjóð var stéttamunur lesskilnings lengstaf sambærilegur við hin Norðurlöndin en hefur nú rokið upp og er enn meiri en hér.

Íslensk börn eru þrautseig

Góðu fréttirnar eru að börnum líður vel í íslenskum skólum. 80% barna hér svara spurningunni „Mér finnst ég tilheyra í skólanum“ játandi, sem er yfir OECD-meðaltali og yfir meðaltali hinna Nrðurlandanna. 80% upplifa einnig að kennarar í skólanum hafi áhuga á vellíðan nemenda, sem er einnig aðeins yfir meðallagi samanburðarlandanna. Þá hafa færri börn hér þá sögu að segja að aðrir nemendur hafi dreift andstyggilegum kjaftasögum um sig, eða 4% nemenda á móti 5% á Norðurlöndunum og 7% innan OECD.

Íslensk börn eru yfir meðallagi þrautseig og streituþolin en samkennd þeirra er undir meðallagi OECD-ríkja.

Helstu styrkleikar íslenskra barna reynast, samkvæmt könnuninni, vera þrautseigja, streituþol, tilfinningastjórnun og skörungsskapur. Þar mælast þau yfir meðaltali OECD-ríkja. Íslensk börn eru hins vegar undir meðaltali OECD-ríkjanna í mældri forvitni, samkennd og samvinnu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí