Sumir hafa lýst yfir ánægju sinni með að skipun Svanhildar Hólm Valsdóttir sem sendiherra í Bandaríkjunum þrátt fyrir að vera hvorki Sjálfstæðismenn né ómeðvitaðir um þá augljósu spillingu sem felst í skipun hennar. Sumir virðast eiga auðvelt með að horfa fram hjá spillingu ef sá sem nýtur hennar er frambærileg kona. Þetta fólk virðist ekki átta sig á því að Svanhildur er að hafa af annarri frambærilegri konu starfið, konu sem hafði verið skipuð á faglegum grundvelli en ekki vegna þess að hún vissi verstu leyndarmál ráðherra. Sú kona heitir Bergdís Ellertsdóttir og er núverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.
Hér er rétt að taka fram að ekkert hefur komið fram um hvort Bergdís hefði óskað sér að vera lengur sendiherra vestanhafs. Það má þó telja það líklegt því hún hefur ekki verið svo lengi í því starfi, hóf störf sumarið 2019. Ólíkt Svanhildi þá hefur hún gífurlega reynslu af utanríkisþjónustu, en Svanhildur hefur fyrst og fremst reynslu af tvennu: fjölmiðlum á Íslandi og pólitískum spuna á Íslandi. Hvorugt nokkuð sem myndi gagnast sendiherra verulega í starfi.
En hvaða reynslu hefur Bergdís? Æviágrip hennar á Wikipedia svara því ágætlega en þau hljóða svo:
„Bergdís Ellertsdóttir (f. 1962) er núverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Hún var fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá 2018 til 2019. Hún hóf störf hjá utanríkisráðuneyti Íslands árið 1991 og hefur síðan þá unnið á fjölda vettvanga, meðal annars hjá NATÓ, EFTA og Evrópusambandinu. Hún hefur einnig gegnt stöðu sendiherra Íslands í Belgíu, Hollandi, Lúxemborg, Sviss og San Marínó“.