Það styttist senn í forsetakosningar. Fá alvörugefin framboð hafa þó enn verið tilkynnt. Enginn skortur er þó á því að menn skora á aðra að fara í framboð. Eitt nýjasta dæmið um það var fyrir helgi þegar Bubbi Morthens kallaði eftir framboði Ólaf Jóhans Ólafssonar rithöfunds.
En Bubbi er ekki einn um að kalla eftir framboði. Hallgrímur Helgason gerir það einnig í dag og segist vilja Katrínu Oddsdóttur á Bessastaði. Hún er lögmaður og líklega þekktust fyrir að vera talsmaður nýrrar stjórnarskrár. Hallgrímur skrifar:
„Með fullri virðingu fyrir Bubba og ÓJÓ þá held ég að nú sé tíð á konu á Bessastaði, og þá kemur þessi kempa óneitanlega upp í hugann. Katrín Oddsdóttir hefur allt í djobbið, gáfuð, skelegg, geðgóð, óþreytandi, réttsýn, hjartahlý, málgóð, jákvæð, fögur og glæsileg. Sannur kvenskörungur á hárréttum aldri.“
Hann heldur áfram og segir Katrínu ekkert annað en samvisku þjóðarinnar. „Hún hefur sterkan bakgrunn í réttindabaráttu, réttlætisbaráttu og umhverfisvernd fyrir utan að hafa sýnt ódrepandi elju í stjórnarskrármálinu. Þá hefur hún viðamikla reynslu af viðburðum ýmiskonar, sem skipuleggjandi og hjónavígslukona. Og sjálfsagt er ég að gleyma einhverju mikilvægu. Í raun hefur hún starfað við það undanfarin ár að vera samviska þjóðarinnar. Við yrðum stolt þjóð með þessa glæstu og víðsýnu réttlætishetju á Bessastöðum,“ segir Hallgrímur.