Ársþing breska Verkamannaflokksins stendur nú yfir í Liverpool í Bretlandi. Flokkurinn er að reyna að reka af sér slyðruorðið eftir þrjú ár undir stjórn Sir Keir Starmer. Hann hefur eitt mest af þessum tíma í að stunda hreinsanir í flokknum gegn stuðningsmönnum fyrrum leiðtoga, Jeremy Corbyn, sem eru framhald af þeim undirróðri gegn félögum í flokknum sem Al Jazeera hefur gert góð skil. Starmer hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir litlausa forystu og skort á stefnumálum og stjórnarandstöðu gegn óvinsælli ríkisstjórn Íhaldsflokksins. Flokkurinn vill nú skerpa á stefnumálunum og nota ársþingið til þess.
Flokksþingið kemur í kjölfarið á embættistöku Liz Truss sem forsætisráðherra Bretlands. Kwasi Kwarteng, nýji fjármálaráðherrann, hefur stórlækkað skatta á hátekjufólk og fyrirtæki og ríkisstjórnin hefur þvertekið fyrir að setja hvalrekaskatt á ofsagróða orkufyrirtækja, sem þó höfðu verið boðaðar af fyrri ríkisstjórn Boris Johnsson. Þetta hefur leitt til hruns á pundinu, gjaldmiðli landsins, þar sem markaðurinn virðist ekki trúa brauðmolakenningunni sem þessar skattalækkanir byggja á, enda hafa hagtölur síðustu áratuga sannað það að brauðmolakenningin virkar ekki. Þessi staða ætti því að gefa stjórnarandstöðu Verkamannaflokksins byr undir báða vængi.
Helstu stefnumálin sem kynnt eru á þinginu snúa að baráttunni gegn hamfarahlýnun. Flokkurinn lofar því að orkuframleiðsla verði hlutlaus gagnvart koltvísýringslosun árið 2030, fimm árum fyrr en núverandi áætlanir gera ráð fyrir. Vindorka á landi verður tvöfölduð, sólarorka þrefölduð og vindorka á hafi fjórfölduð. Kjarnorkuraforka verðu einnig aukin. Til að fjármagna þetta vill flokkurinn snúa við skattalækkunum á hátekjufólk og setja á hvalrekaskatt.
Flokkurinn vill einnig gera átak í menntamálum og lofar 6.500 fleiri kennurum og auknu fjármagni til skólanna. Svo verði gert átak í öldrunarþjónustu og geðheilsu, auk þess sem fæðingarorlof verði lengt. Staðið verði vörð um stöðu verkafólks og verkalýðsfélögum tryggð réttindi.
Augljóst er að Verkamannaflokkurinn og Sir Keir Starmer vilja reyna að skerpa á áherslunum og reyna að sýna fram á að mikill munur sé á flokknum of ríkisstjórn Íhaldsflokksins. Enda hefur forysta flokksins verið gagnrýnd fyrir lélega stjórnarandstöðu. Margir gagnrýnendur á vinstri vængnum telja þó að ekki sé mikla róttækni að finna í þessum stefnuáherslum. Fyrirtæki sem vilji „grænþvo“ sig séu áberandi á þinginu og sósíalískum áherslum ýtt til hliðar, m.a. þeirri kröfu að einungis þjóðnýting á orkufyrirtækjunum myndi leiða til raunverulegs græns hagkerfis. Slík stefna myndi spara heimilunum allt að 122 milljörðum punda yfir tveggja ára tímabil, eins og rannsókn Breska Verkamannasambandsins sýnir.
Stærstu verkalýðsfélögin vilja mun róttækari aðgerðir og yfirtöku samfélagsins á orkufyrirtækjum. Félögin hafa líka gagnrýnt lítinn stuðning flokksforystunnar við verkalýðsfélögin, sérstaklega þegar kemur að verkfallsaðgerðum. Mick Lynch, formaður félags starfsmanna í lestar og flutningageiranum kallar eftir því á ársfundinum að Verkamannaflokkurinn sýni það að hann standi í alvöru með vinnandi fólki gegn efnafólkinu.
Á þessari slóð má finna samantekt úr ræðum forystu Verkamannaflokksins. Ársþing Verkamannaflokksins mun standa fram á miðvikudaginn 28. September og mun Samstöðin fylgjast með þinginu.
Rætt verður við Guðmund Auðunsson hagfræðing um flokksþingið, þætti Al Jazeera og stöðuna í flokknum við Rauða borðið í kvöld.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga