Stjórnmálaskýrendur Ríkisútvarpsins hafa teygt sig til Finnlands til að benda á fordæmi þess að forsætisráðherra fari í framboð til forseta. Það er hins vegar ekki hægt að bera saman forsætisembættið á Íslandi og í Finnlandi, fyrst og fremst vegna þess að í Finnlandi fara frambjóðendur fram sem fulltrúar sinna flokka. Sú er ekki hefðin á Íslandi, heldur þvert á móti.
Og það er augljóst þegar ákvörðun Katrínar er skoðuð. Hún lýsir yfir framboði til forseta, segir af sér sem formaður Vg, biður lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og segir af sér þingmennsku. Þannig myndi kaupin ekki gerast í Finnlandi. Þar eru öllum ljóst að forsetaframbjóðendur eru frambjóðendur tiltekinna flokka. Með finnskri aðferð færi Katrín í framboð til forseta sem fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Finnar kusu sér forseta í tveimur umferðum snemma á árinu. Í framboði voru þessi:
Alexander Stubb sem var frambjóðandi Landsfylkingar, Pekka Haavisto, sem var frambjóðandi Græningja og óháðra, Jussi Halla-aho sem var frambjóðandi Finnaflokksins, Olli Rehn sem var frambjóðandi Miðflokksins og óháðra, Li Andersson sem var frambjóðandi Vinstrabandalagsins, Jutta Urpilainen sem var frambjóðandi Sósíaldemókrata, Sari Essayah sem var frambjóðandi Kristilegra demókrata, Hjallis Harkimo sem var frambjóðandi nýs flokks sem kalla mætti Nútímahreyfingin og loks Mika Aaltola sem var óháður frambjóðandi.
Þetta er svolítið annars konar kjörseðill en er í íslenskum forsetakosningum. Í Finnlandi er forsætisembættið hluti af hinu flokkspólitíska sviði en sú er ekki raunin á Íslandi. Svo til allir frambjóðendur í finnskum kosningum eru virkt stjórnmálafólk, en slíkt heyrir til mikillar undantekninga á Íslandi. Það má sjá tengsl stjórnmálaflokkanna við kosningarnar í Finnlandi af því að þar geta flokkar tilnefnt frambjóðendur en frambjóðendur sem ekki eru tilnefndir af flokkum þurfa að safna 20 þúsund meðmælendum.
Myndin er af Alexander Stubb, forseta Finnlands sem var forsætisráðherra um skamma hríð 2015-16, Katrínu Jakobsdóttur forsetaframbjóðenda, sem var forsætisráðherra 2017-24.