„Samfylkingin geldur mikinn varhug við hugmyndum í fyrirliggjandi frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum um að setja á stofn svokallað “lokað búsetuúrræði”. Varðhaldsbúðir af því tagi eru ómannúðlegar í eðli sínu og hafa orðið sjálfstætt andlag útlendingaandúðar í Evrópu.“
Þetta segir í tillögu fimm flokksmanna Samfylkingarinnar að ályktun sem leggja á fyrir flokksstjórnarfund flokksins í dag. Formaður flokksins, Kristrún Frostadóttir, lýsti því í febrúar síðastliðnum að hún teldi mikilvægt að tillaga sem dómsmálaráðherra hafði þá lagt fram, um lokuð búsetuúrræði, fengi þinglega meðferð. „Það þarf að gera þetta á mannúðlegan hátt og það er hægt að gera þetta með þeim hætti,“ sagði Kristrún í hlaðvarpsþætti þar sem rætt var um útlendingamál.
Kristrún sagði einnig í þættinum að opin landamæri og það að halda úti velferðarkerfi færi ekki saman. Orðfæri Kristrúnar þegar kom að útlendingamálum vakti talsverða úlfúð meðal samflokksmanna hennar, .þannig voru dæmi þess að fólk gengi úr flokknum vegna orða hennar.
Að sama skapi vöktu skrifin mikinn fögnuð pólitískra andstæðinga. Þannig afhentu stjórnarmenn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, Kristrúnu flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum fyrir vikið.
Líta má á tillöguna sem nú er lögð fram sem beina atlögu að orðum Kristrúnar. Í tillögunni segir meðal annars að flokkurinn fagni því að á landinu hafi á undanförnum árum og áratugum byggst upp fjölmenningarlegra samfélag. Framlag innflytjenda sé undirstaða velgengni á efnahags- og velferðarsviðinu auk þess sem þeir færi okkur matarmenningu, íþróttir og tónlist, svo eitthvað sé nefnt.
Nefnt er sérstaklega að atvinnuþátttaka innflytjenda sé meiri hér en á hinum Norðurlöndunum, sem og að hún sé hærri en innfæddra Íslendinga. Tryggja verði að aðfluttir geti notið jafnrar stöðu í samfélaingu með inngildingu, samráði, mannréttindum og jafnrétti að leiðarljósi.
„Samfylkingin berst gegn útlendingaandúð og fordómum. Andúð og fordómar vinna gegn inngildingu og eru öllum landsmönnum skaðleg óháð uppruna. Það er því ávallt verkefni jafnaðarfólks að vinna gegn ótta og tortryggni í samfélaginu og efla samstöðu og samkennd þvert á hópa,“ segir í ályktunardrögunum.
Þá segir í tillögunni að Samfylkingin vilji leggja áherslu á að endurskoðun á útlendingalöggjöfinni og móttökukerfi umfækjenda um alþjóðlega vernd verði aðeins unnin með mannúð að leiðarljósi. „Harka og ófyrirleitni gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd stríða gegn grunngildum jafnaðarfólks.“
Í tillögunni er þrengingu á rétti til fjölskyldusameiningar flóttafólks með dvalarleyfi hér á landi mótmælt. „Slík þrenging hefði komið í veg fyrir þá björgun mannslífa sem tekist hefur á undanförnum vikum þar sem fjölskyldum, einkum konum og börnum, hefur verið komið í öruggt skjól á Íslandi undan linnulausu ofbeldi Ísraelshers á Gaza, þökk sé frumkvæði hugrakkra sjálfboðaliða. Fjölskyldusameiningar eru mannréttindi og grundvöllur inngildingar og aðlögunar fólks af erlendum uppruna og er það hagur íslensks samfélags að stuðla að farsælum fjölskyldusameiningum fólks sem kemur til landsins.“
Flutningsmenn eru Alexandra Ýr van Erven, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sabine Leskopf,
Vilhjálmur Þorsteinsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir.