Frumvarp matvælaráðherra um lagareldi er „enn eitt dapurlegt dæmið um eftirgjöf Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við peninga- og gróðaöflin“.
Þetta skrifar Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, í grein þar sem hann deilir harkalega bæði á umrætt frumvarp en einnig á stjórnmálaflokkinn sem hann sat á þingi fyrir, Vinstri græn.
Ögmundur segir að frumvarpið sé „réttilega harðlega gagnrýnt utan þings og innan“. Deilurnar hafi einkum staðið um sjókvíaelda á laxi enda hafi hagsmunaaðilar bent á ógn sem af því stafar við íslenska laxastofninn. Þá sé einnig harðlega gagnrýnt að með frumvarpinu fá fiskeldisfyrirtæki fyrirsjáanlega heila firði til afnota, ótímabundið. „Í Noregi er fylgst grannt með framvindu mála því eigendur fiskeldisfyrirtækja við Íslands strendur eru að uppistöðu til norskir fjárfestar sem leita nú til Íslands eftir auðfengnari gróða en heima fyrir,“ skrifar Ögmundur.
Ögmundur beinir sjónum einkum að því að ríkisstjórnin skuli með þessu afhenda auðlindir þjóðarinnar, í formi fjarða landsins, varanlega í hendur einkaaðila. „Hélt ég að við hefðum brennt okkur svo rækilega á kvótaráninu að hefðum vit á að sýna nú fyrirhyggju.“
Bendir Ögmundur enn fremur á að í frumvarpinu um lagareldi séu ákvæði um ótímabundin rekstrarleyfi, um framsal leyfa milli svæða, leigu heimilda til annarra rekstraraðila og veðsetningu rekstrarleyfa. Með öðrum orðum sé í frumvarpinu allt sem gagnrýnt hefur verið helst af þeim sem telja að fiskveiðistjórnunarlöggjöfin sé gagnrýniverð, allar meinsemdirnar séu teknar upp í umræddu frumvarpi.
Þá hlífir Ögmundur nýjum matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, í engu. Bjarkey haldi því fram, skrifar Ögmundur, að búið hafi verið að úthluta öllum leyfum til lagareldisins þegar ráðuneytið kom í hlut Vinstri grænna, en Svandís Svavarsdóttir samflokkskona Bjarkeyjar sat sem kunnugt er á ráðherrastól í ráðuneytinu á undan Bjarkeyju.
Ögmundur gerir við þetta töluverðar athugsemdir. Fyrir það fyrsta hljóti úthlutun á leyfunum að hafa átt sér stað í tíð sitjandi ríkisstjórnar, sem sé þá samábyrg fyrir málinu, og þar að auki sé þetta raunar ekki allskostar rétt hjá Bjarkeyju. Í bráðabirgðaákvæði með lögunum sé nefnilega tilgreint að fara skuli eftir eldri lögum um umsóknir rekstrarleyfa þeirra sem ekki hafi verið endanlega afgreidd fyrir gildistöku laganna.
Engu að síður, skrifar Ögmundur, er ljóst að þegar leyfin verði samþykkt muni þau taka til nýrra leyfishafa og einnig þeirra sem starfað hafi samkvæmt eldri lögum, þar sem kveðið er á um leyfi til 16 ára.
„Á mannamáli heitir þetta varanlegt framsal, nokkuð sem flokkur matvælaráðherra hefur alla tíð sagst vera andvígur þótt gjörðirnar fyrr og nú hafi verið á annan veg,“ skrifar Ögmundur.
Bjarkey haldi því hins vegar fram að svo sé ekki, enda megi innkalla rekstrarleyfin hvenær sem er. Ögmundur bendir hins vegar á að það sé, samkvæmt frumvarpinu, aðeins hægt hafi rekstraraðilar gerst brotlegir við lögin eða nýti ekki heimildir sínar.
Þegar Bjarkey hafi verið spurð hví leyfisveitingar séu ótímabundnar hafi hún svarað því að það væri talið standast betur stjórnarskrárbundin réttingi um meðalhóf. Hið sama eigi við um auðlindagjald, sem ekki skuli lagt á þar eð það sé „íþyngjandi“ fyrir fyrirtæki í örum rekstri og „rétt að gefa þeim svigrúm til þess“.
„Með öðrum orðum, hvers kyns takmörkun á leyfisveitingum í árum talið, eða gjaldtaka er íþyngjandi, eins konar viðurlög, að mati ráðherra. En ef meðalhófsregla á að tryggja að allir sitji við sama borð, þeir sem hafa rétt til 16 ára og hinir sem fá ótkamrakaðan rétt, kom það þá aldrei til tals að snúa þessu við, að allir fengju 16 ára leyfi? Eða var það talið of íþyngjandi viðurlög?
Er öll pólitík horfin úr pólitíkinni? Spyr sá sem ekki veit,“ skrifar Ögmundur, og bætir við:
„Það sem að uppúr stendur í mínum huga er að hér er enn eitt dapurlegt dæmið um eftirgjöf Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við peninga- og gróðaöflin, ekki bara innlent heldur alþjóðlegt auðvald, því þangað mun afraksturinn renna.
Ég spyr, er ekki nóg komið – og það fyrir löngu síðan?“