Bandaríski hrægammasjóðurinn Bain Capital er lang stærsti hluthafinn í Icelandair, á meira en 17% hlutafjár. Hluturinn er geymdur í írsku félagi sem kallast Blue Issuer, en Írland er skattaparadís sem notuð er af alþjóðlegum félögum til að komast hjá skattgreiðslum.
„Það kemur ekki á óvart að þessi eignarhlutur sé geymdur í skúffu í skattaparadís,“ sagði Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, í samtali við netmiðilinn Túrista, sem greindi fyrstur frá fréttinni. „ Það er auðvitað gert til að greiða sem minnst í sameiginlega sjóði. Það er væntanlega fyllilega löglegt en sýnir bara mikilvægi þess að loka almennt fyrir þær glufur sem skattaskúffur búa til í skattkerfum.“
Mitt Romney og félagar í Bain Capital á upphafsárum sjóðsins, mynd sem sýnir vel móralinn í hrægammasjóðunum.
Bain Capital er illa þokkaður sjóður í Bandaríkjunum. Afstaða Bandaríkjamanna til hans kom berlega í ljós þegar Mitt Romney bauð sig fram til forseta, en Romney er einn af stofnendum sjóðsins og auðgaðist stórkostlega af starfsemi hans. Þegar Romney reyndi á fundum að halda því fram að hann hefði mikla reynslu af atvinnulífinu voru gerð hróp að honum, fólk benti á að Bain Capital hefði ekki byggt upp nokkurn skapaðan hlut heldur keypt eldri fyrirtæki, skrælt þau að innan, sagt upp fólki, lækkað laun og gert þau miklu verri en áður var.
Bain Captal er helsta dæmið sem Josh Kosman notar í bók sinni The Buyout of America: How Private Equity Is Destroying Jobs and Killing the American Economy sem kalla mætti á íslensku: Ameríka keypt: Hvernig fjárfestingarsjóðir eyðileggja störf og er að drepa bandaríska hagkerfið. Það er því í hæsta máta undarlegt að kaupum Bain Capital á hlut í Icelandair skilu vera fagnað af stjórnmálafólki og fjölmiðlum á Íslandi.
Þær aðgerðir sem Bogi Nilsson, forstjóri Iclandair, hefur gripið til eftir að félagið fór í þrot í upphafi cóvid eru allar í anda Bain Capital. Laun starfsfólks hafa verið lækkuð og félagið stundað vægðarlaust það sem kallast union busting, reynt að brjóta niður samtakamátt launafólks og veikja samtök þeirra.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga