„Það tók mig langan tíma að átta mig á hversu ruglað ástand ríkti á vettvangi ASÍ. Það tók mig langan tíma að átta mig á að leikreglur lýðræðisins skiptu marga þar engu máli; ef að „rangt“ fólk var með lýðræðislegum hætti valið af félögum sínum til að leiða baráttu þess félags er um ræddi, var það einfaldlega svo að hópur fólks innan vébanda ASÍ var tilbúinn til að gera sitt til að grafa undan, jaðarsetja, útiloka og síðast en ekki síst taka þátt í illmælgi og rógburði til að reyna að hrekja þetta fólk frá störfum,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir á Facebook í tilefni á viðtali Höllu Gunnarsdóttur, fráfarandi framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins, þar sem Halla segir að baráttan innan ASÍ snúist aðeins um völd og yfirráð.
Sólveig heldur áfram: „Ef að við horfum á Eflingu er þetta einstaklega skýrt; það var ekki fyrr en ég hafði verið hrakin frá formennsku af ofstækis-fólki og Agnieszka Ewa og Ólöf Helga voru komnar til valda að ASÍ varð helsti stuðningsaðili forystu Eflingar með loforðum um að allt yrði gert til að liðsinna þeim, ekki síst í slagnum við mig og félaga mína. Sem að var svo sannarlega gert, með ráðum og dáð. Meira um það á næstu dögum.“
Halla sagði með svipuðum hætti frá valdabaráttunni innan Alþýðusambandsins á Sprengisandi fyrir viku, eins og Samstöðin greindi frá. Sjá hér: Halla segir Ragnar og Vilhjálm vera hægrimenn.
Í viðtalinu í Dagmálum Morgunblaðsins er hún á svipuðum nótum, segist smám saman hafað áttað sig á því að „þetta snérist bara um völd og yfirráð“.
Sólveig Anna segist á Facebook vilja bregðast við þessu fullyrðingum. Sólveig Anna vísar á greinaflokk sinn sem hún skrifaði í Kjarnann en bætir svo við:
„Halla Gunnarsdóttir bendir ekki á neitt máli sínu til stuðnings þegar hún fullyrðir að ég, Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson séum aðeins knúin áfram af lágkúrulegri valdasýki. Ég hef aftur á móti ávallt, bæði á vettvangi ASÍ og í annari umræðu, rökstutt skoðanir mínar ítarlega og lagt fram gögn málflutningi mínum til stuðnings. Það er ömurlegt að fráfarandi framkvæmdastjóri ASÍ skuli ekki vera fær um annað en persónulegar atlögur að fólki, og geri enga tilraun til að færa í það minnsta einhverjar sönnur á mál sitt.
Halla segist ekki skilja umræðuna um endurvakningu Salek. Það er stórundarlegt ef rétt er. Halla ætti framar flestum að þekkja þá einbeittu vinnu sem að fór í gang hjá forsætisráðuneytinu með mikilli aðkomur ASÍ undir stjórn Drífu Snædal í því að útbúa svokallaða Grænbók um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál (undirbúningsvinna við að innleiða Salek-kerfið, undir öðru nafni). Halla var pólitískur ráðgjafi og nánasti samstarfsmaður forseta ASÍ. Hún útbjó t.d. með forsetanum gagna-pakka til að senda Grænbókar-nefndinni en sá pakki innihélt að mestu skjöl og gögn frá tíð Gylfa Arnbjörnssonar, algjörlega eins og þau komu af kúnni. Þótti Höllu þetta fullsæmandi pólitískt innlegg frá forystu ASÍ, og þetta hefði verið sent nema fyrir andstöðu mína og Ragnars Þórs, formanns VR (um þetta má lesa í grein minni Með Salek á sjálfstýringu: Kreppa íslensku verkalýðshreyfingarinnar II).
Halla segir að innan ASÍ séu stofnanir þar sem að takast eigi á um málefni. Hún telur upp þing ASÍ, miðstjórn, formannafundi og málefnanefndir. Þetta er rétt hjá Höllu og á nákvæmlega þessum vettvöngum hef ég ítrekað komið skoðunum mínum á framfæri, krafist svara um ýmis mál, lagt fram gögn máli mínu til stuðnings o.s.frv. Ég hef að öllu leiti virt lýðræðislega vettvanga ASÍ en það sama er ekki hægt að segja um nánasta stuðningsfólk Drífu Snædal; þau hafa haldið leynifundi, og svo auðvitað fyrst og fremst ástundað kviksögur og rógburð í auðvirðilegum tilraunum sínum til að grafa undan málflutningi mínum, og annara sem að þeim eru ekki þóknanlegir. Jafnvel gengið svo langt að útbúa sérstaka kvenna-póstlista þar sem að starfsfólk ASÍ, forseti og aðrir sem að starfa innan vébanda ASÍ hafa komið saman til að ræða persónu mína og hvernig hægt sé að beita sér í baráttunni gegn forystu minni í Eflingu.
Eitt af fyrstu verkum Höllu Gunnarsdóttur sem framkvæmdastjóra ASÍ var að útbúa sérstakan sérfræðingahóp heildasamtaka launafólks. Hún gerði sjálfa sig að yfir-sérfræðing sérfræðingahópsins. Um það var engin umræða á lýðræðislegum vettvöngum ASÍ. Hún bauð svo til starfa með sér í hópnum hinum og þessum sérfræðingum (frá BSRB, BHM, VR, ásamt öðrum) en gætti þess að bjóða fulltrúa frá Eflingu ekki þátttöku í starfi hópsins. Það var ekki fyrr en ég gerði alvarlegar athugasemdir við það að Efling, stærsta félag verka og láglaunafólks á landinu, væri sniðgengið (á fundi þar sem að framkvæmdastjóri ASÍ skammaði mig fullum hálsi fyrir að dirfast að hafa skoðun, ekki í fyrsta og ekki í síðasta skipti) að forseti ASÍ bauð fulltrúa Eflingar þátttöku í hópnum.
Eitt af síðustu verkum Höllu sem framkvæmdastjóri ASÍ var vinna við sameiginlegri kröfugerð með BSRB og BHM. Um þessa kröfugerðarvinnu var miðstjórn ekki upplýst með neinum eðlilegum eða gagnsæum hætti, ekki var kallaður saman formannafundur eða samninganefnd ASÍ virkjuð. Kröfugerðarvinnan var kölluð „Boðorðin 10“ og þetta sagði Halla um hana á miðstjórnarfundi: „Þessi vinna og möguleg sameiginleg yfirlýsing væri vitanlega öldungis óháð kröfugerð aðildarfélaga.“ Þegar að forseti ASÍ sendi svo miðstjórn plaggið kom í ljós að þar var um að ræða sameiginlega kröfugerð með öðrum heildasamtökum á vinnumarkaði, unnin af tveimur starfsmönnum skrifstofu ASÍ, án umboðs og án nokkurar aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa vinnandi fólks! Í tölvupóstum til Drífu Snædal gerðum ég og Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, verulegar athugasemdir við þessi fráleitu vinnubrögð. Ég benti forseta ASÍ m.a. á að Efling hefði ekki tekið neina ákvörðun um að fela ASÍ samningsrétt félagsins né átt í viðræðum eða samtölum við ASÍ um að gefa sambandinu umboð til undirbúa kjaraviðræður af ákefð án aðkomu formanns félagsins, stjórnar, trúnaðarráðs eða samninganefndar. Eins og svo oft áður var fátt um svör og veit ég ekki hvort að Halla og Drífa heldu áfram með þessa sameiginlegu kröfugerðarvinnu, framhjá öllum lýðræðislegum stofnunum ASÍ. Það kæmi sannarlega ekki á óvart.“
Í lok færslu sinnar bætir Sólveig Anna þessu við: „Það verður áhugavert að sjá hvaða vettvang Halla Gunnarsdóttir velur sér til að starfa á næst. Ég veðja á að forsætisráðherra geti hjálpað henni að finna eitthvað sem að þeim finnst við hæfi. Ég vona að hún finni sér í það minnsta eitthvað annað að sýsla en vettvang verkalýðsbaráttunnar. Verka og láglaunafólk á Íslandi þarf á öðru og betra að halda en sjálfsskipuðum sérfræðingum hinnar menntuðu millistéttar í hinni grafalvarlegu baráttu um brauðið.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga