Ný norræn rannsókn sýnir fram á það að samhliða innleiðingu á frjálslyndari löggjöf á Norðurlöndum, þar sem konur fengu rétt til að stjórna eigin líkama, þá hafi fjöldi þungunarrofa ekki aukist og hefur raunar minnkað töluvert.
Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi prófessor og yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, er einn meðhöfunda rannsóknarinnar og talaði við RÚV um niðurstöðurnar.
„Ef þú setur frjálslegri löggjöf þá þýðir það ekki að það opnist allar flóðgáttir og konur fari í það í stórum stíl að fara í þungunarrof. Þvert á móti, þær höndla það með ábyrgum hætti“, sagði Reynir við RÚV.
Þannig er mál með vexti að löggjöf um þungunarrof hér á landi sem og á Norðurlöndunum er um það bil hálfrar aldar gömul. Aukning í þungunarrofi mátti gæta í byrjun sem var eðli málsins samkvæmt augljóst þar sem áður voru þungunarrofsaðgerðir bannaðar. Hins vegar hefur tíðni þungunarrofa að mestu staðið í stað síðan frá árinu 1980 og hjá yngri konum í dag hefur tíðnin minnkað smávegis. Það sama á við um þróunina hér á Íslandi eftir að löggjöfin varð ennþá frjálslegri árið 2019. Aðgerðum hefur ekki fjölgað.
Niðurstöðurnar eru sérstaklega athyglisverðar í ljósi þess að víða um heim er afturför í réttindum kvenna til þungunarrofs, ekki síst vestanhafs í Bandaríkjunum.