Ragnar Þór Ingólfsson segir ákvörðun sín um að hætta öllum afskiptum af Alþýðusambandinu venjist vel, hann segist finna fyrir miklum létti. Hann segir viss um að VR geti náð góðum kjarasamningnum við Samtök atvinnulífsins, en til að ná árangri gagnvart stjórnvöldum þarf að mynda breiðari samstöðu. En það mun ekki verða gert á vettvangi ASÍ.
Ragnar Þór vill ekki ræða úrsögn VR úr Alþýðusambandinu, segist aðeins hafa tekið ákvörðun fyrir sig persónulega. Hann mun ekki koma nálægt ASÍ, ekki mæta á miðstjórnarfundi og ekki taka þátt í neinu starfi þar.
Eftir sem áður er það svo að fyrst þegar Ragnar Þór var kjörinn formaður VR var það meðal annars vegna andstöðu hans gagnvart ASÍ, sem Gylfi Arnbjörnsson stýrði á þeim tíma. Það er því vitað að lengi hefur verið óánægja innan VR með ASÍ, bæði forystu sambandsins og hversu lítið VR fær út úr því að leggja um 175 m.kr. árlega til sambandsins.
En Ragnar Þór segir að þetta sé ekki tímabær umræða í dag. Fram undan séu samningar og það sé mikilvægt að koma til þeirra vel undirbúin. Í aðdraganda þings ASÍ segist Ragnar Þór hafa rætt við Starfsgreinasambandið, iðnaðarmannasamfélagið og að hluta til líka sjómenn um samflot og samstarf í samningunum. Vonir stóðu til að ASÍ gæti orðið farvegur fyrir breiða samstöðu launafólks en það sé nú ljóst að úr því verður ekki.
Því þarf að búa til nýjan vettvang fyrir slíkt eða annars konar samstarf. VR sé vel búið, með gott starfsfólk og mikla getu til að undirbúa samninga og skipuleggja aðgerðir. Styrkur VR er eitthvað sem önnur félög geta nýtt sér.
Ragnar Þór segir að niðurstaða þings ASÍ hafi komið sér á óvart. Hann taldi að andstæðingar sínir, Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar og Vilhjálms Birgissonar formann Verkalýðsfélags Akranes myndu hrósa sigri og taka Alþýðusambandið yfir. Það kom hins vegar í ljós að þau höfðu engan styrk til þess. Þegar á reyndi vildu aðeins 20 manns halda þinginu áfram og kjósa til embætta. Það er furðulega fáskipað lið og varla hópur sem getur talist efnileg forysta verkalýðshreyfingarinnar.
Ragnar Þór sagðist helst hafa viljað að þetta fólk tæki ASÍ yfir. Það hafi verið hans hugsun. Eftir að hafa þolað linnulausar árásir og fáránlega ásakanir mánuðum saman ákvað hann að láta á það reyna hvort hægt væri að sameina hópinn innan sterks Alþýðusambands. Dagana sem hann var að ákveða framboðið virtist svo vera. En dagana fyrir þingið og á þinginu sjálfu kom í ljós að sumt fólk ætlaði ekki að láta af þessu árásum og það hafi runnið upp fyrir honum að þetta myndi aldrei breytast. Ef hann færi í framboð yrði hann kosinn forseti yfir Alþýðusambandi sem væri veikt og sundurétið af illindum og sundrung. Hann hafi séð að nú væri síðasti möguleikinn að hætta við og hann hafi ákveðið að gera það sem var rétt. Yfirgefa ASÍ og láta því fólki eftir sambandið sem staðið hefur fyrir þessum illindum.
Ragnar Þór ætlar ekki að eyða meiri tíma í ASÍ. Hann hafi nú þegar eytt of miklu tíma þar án nokkurs árangurs. Innan VR geti hann hins vegar unnið að mörgum góðum málum með fólki sem vill vinna með honum. Og þar ætlar hann að eyða kröftum sínum.
Aðspurður segist Ragnar Þór ekki hafa nokkra trú á að nokkuð breytist á þeim sex mánuðum sem eru fram að framhaldi þings ASÍ. Auðvitað verða kjaraviðræður og mögulega hörð átök. En hann segist ekki hafa nokkra trú á að hægt verði að laga ASÍ svo það verði til nokkurs gagns.
Heyra má og sjá viðtalið við Ragnar Þór í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga