„Það vekur nokkra athygli að hæstvirtur félagsmálaráðherra virðist líta á lög og reglur sem eins konar hlaðborð eða vinsamleg tilmæli. Það kemur m.a. fram í því að hún hefur nú brotið jafnréttislög með skipan í stjórn ríkisfyrirtækis. Hún er reyndar búin að taka þessa skipun til baka, væntanlega eftir hvatningu stöllu sinnar, dómsmálaráðherra sem fer með jafnréttismál. Það breytir ekki því að þarna fer hún í sama knérunn og fleiri ráðherrar hafa gert fyrr. Ég man í fljótu bragði eftir einum fjármálaráðherra, ef ég man rétt, og einum forsætisráðherra,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson, sem nú situr á þingi fyrir Miðflokkinn í fjarveru Snorra Mássonar.
„En þetta er ekki til eftirbreytni, frú forseti. Þetta er ekki til eftirbreytni vegna þess að við eigum að treysta á að ráðherrar fari að landslögum. Sagan er ekki öll, frú forseti, vegna þess að hæstvirtur félagsmálaráðherra hefur heldur ekki skipað í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins undir því yfirskini að það standi til að breyta lögum um stofnunina, þannig að stjórn sé ekki nauðsynleg. Nú þori ég að veðja, ef ég gerði það, að ef sá sem hér stendur eða einhver annar myndi leggja fram skattframtal sem byggðist á því að fara eftir skattbreytingu sér í hag, sem hefði ekki enn tekið gildi en væri í undirbúningi, þá er ég klár á því að viðkomandi myndi fá, ekki bara tilmæli, eins og þáverandi aðalhagfræðingur Kviku banka, núverandi forsætisráðherra, fékk, heldur hótun um sekt og jafnvel varðhald. Þannig að ég segi aftur: Það er lágmark að ráðherrar í ríkisstjórn fari að landslögum og ég minni á herferðir þessa hæstvirts félagsmálaráðherra þegar aðrir ráðherrar hafa stigið á sleipa grund áður fyrr.“