„Bikblæðingar. Ég hef verið frekar hugsi yfir þessu síendurtekna vandamáli sem er að koma upp allt of oft og virðist einskorðast við landsbyggðina, þ.e. ef skoðað er kort Vegagerðarinnar, sem ég hvet ykkur öll til að skoða. Ég hef áður vakið athygli á þessum vanda og þessari slæmu stöðu. Ég veitti því athygli að samkvæmt fjárauka er búið að ákveða að setja 3 milljarða til að bregðast við þessum vanda. En það dugar auðvitað skammt. Það er bara dropi í hafið en að sjálfsögðu skárra en ekkert. Vandamálið er stórt og innviðaskuldin í vegakerfinu á landsbyggðinni er gríðarlega mikil,“ sagði Ingibjörg Davíðsdóttir þingmaður Miðflokksins í Norðvestri.
„Ég er örugg á því að ef þessi sama staða væri uppi á höfuðborgarsvæðinu þá væri allt hreinlega brjálað, það væri bara allt brjálað. Hvers vegna eru bikblæðingar eingöngu á landsbyggðinni? Hvers á landsbyggðin að gjalda? Af hverju þessir síendurteknu plástrar þar? Hvers vegna eru bikblæðingar algengari á Íslandi en í öðrum löndum? Hvers vegna verður Norðvesturland svona illa úti? Staðan virðist langverst þar, aftur er ég vísa til heimasíðu Vegagerðarinnar. Er alltaf verið að nota ódýrustu aðferðirnar á landsbyggðinni, ódýrustu lausnirnar? Ódýrt er ekkert alltaf best, ódýrt getur orðið mjög dýrt. Af hverju er verið að leggja klæðningar á nýja vegi? Árið er ekki 1970, þó svo að mér finnist árið 1970 mjög frábært ár.
Tími klæðninga er liðinn. Tími klæðninga er liðinn líka á landsbyggðinni. Það er alveg fáránlegt að þegar við þurfum ekki að vera að spá í snjóþyngsli og færð á vegum þá þurfum við að vera að spá í bikblæðingar, hvort það sé öruggt að keyra hér og þar. Þetta er fullkomlega óþolandi staða og fyrir hönd landsbyggðarinnar krefst ég þess að farið verði að leggja almennilega vegi líka á landsbyggðinni. Hættum þessum glatklæðningum.“