Gefa ríkisstjórninni 17 daga til að hypja sig: „Við tökum ekki þátt í þessu lengur!“

Mótmæli hafa verið boðuð við Austurvöll í dag með þá yfirskrift að ríkisstjórnin hafi 17 daga, eða til 17. júní næstkomandi, til að hypja sig. Mörg hundruð manns hafa lýst yfir áhuga á að mæta á mótmælin. Hér má finna viðburðinn á Facebook.

„Við erum búin að fá nóg af mismunun, misrétti, ofbeldi, skeytingarleysi, vanrækslu, ofbeldi, lygi, eiginhagsmunasemi og klíkuskap siðlausrar og óendanlega spilltrar ríkisstjórnar sem er búin að keyra öll velferðarkerfi þjóðarinnar í kaf, gjörsamlega jarða afkomu barna okkar og komandi kynslóða með ólöglegum aðförum að almenningi með ofbeldi og níði í garð þeirra sem minna mega sín,“ segir í lýsingu mótmælanna.

„Þetta er ríkisstjórn sem makar sinn eigin krók á kostnað heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfis eins og það leggur sig og borgar óstarfhæfum ráðuneytisstarfsmönnum himinhá laun á meðan verkafólki úti um allt land er sýnd vanvirðing með mismunun á skala sem við höfum aldrei séð fyrr.“

Þeir sem skipuleggja mótmælin segja að velferðarkerfið sé að hrynja og það sé í boði ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. „Þegar velferðarkerfin hrynja, þá sjáum við dauða alls staðar, þunglyndi, fíkn og ömurð hjá ungum sem og öldnum í okkar litla og fámenna samfélagi. Þessu veldur sinnuleysi vegna græðgi og þjófnaðar á eignum og rétti allra í landinu. Það vita allir vel hvað er að gerast, því í hverri einustu fjölskyldu eru einhverjir sem bíða bana vegna myrkraverka elítunnar sem hér stýrir með glæpsamlegum hætti.“

Skipuleggjendur mótmælanna segja að nú sé kominn tími til að hætta að kvarta og kveina. „Nú hættum við að væla, nú hættir okkur að blæða og við tökum á þessu með hörku í þetta skipti. Ekki með söng eða trommuslætti til að skemmta þessum skepnum. Ef þið leyfið þessu að halda áfram, þá jörðum við fleiri ungmenni, fleiri börn, horfum á fólkið okkar missa allt og við verðum hrakin á flótta. Þetta er okkar líf, þetta er afkoma og líf barna okkar og komandi kynslóða. Við segjum stopp.“

Þeir sem skipuleggja mótmælin segja að þeir sem stjórna séu engu betri en glæpamenn. „Þessir glæpamenn fá ekki að mata sig af launahækkunum á meðan aðrir strita og er mismunað á grófan og viðbjóðslegan máta sem endar oftar og oftar með dauða og heilsumissi. Þetta hyski er REKIÐ og ætti að fá dóma sem og refsingu! Manndráp er glæpur! Níð er glæpur! Vanræksla er glæpur! Þjófnaður er glæpur! Að neita fólki í neyð um aðstoð er GLÆPUR! Þann fyrsta júní næstkomandi förum við fram SAMAN og gefum þeim 17 daga til að hypja sig!“

Líkt og fyrr segir þá er markmiðið að ríkisstjórnin víki innan 17 daga. „Hættið að grenja og stöndum upp af hörku! Þann 17. júní berum við glæpalýðinn út! 17. júní 2023 mun marka nýtt upphaf! Burt með flokkadrætti! Burt með sirkusinn! Við tökum ekki þátt í þessu lengur!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí