Fjölmiðlamaðurinn Þorkell Máni Pétursson, líklega best þekktur úr þáttunum Harmageddon, telur að breytingar á leikskólakerfinu í Kópavogi séu skref í rétta átt. Þessar breytingar hafa þótt nokkuð umdeildar en í stuttu máli snúast þær um að dagvistun undir sex tímum er gjaldfrjáls, en eftir það er rukkað og það mikið. Svo mikið að leikskólagjöld í Kópavogi verða þau hæstu á höfuðborgarsvæðinu þegar ný gjaldskrá tekur gildi í september.
Líkt og Samstöðin greindi frá í gær þá mun þessi breyting að öllum líkindum koma mest niður á þeim verst settu. Einungis tvö prósent foreldra nýta sér undir 6 tíma vistun. Margt lágtekjufólk neyðist til að vinna langa vinnudaga til að ná endum saman og því þýðir þetta kerfi einfaldlega meiri útgjöld.
Máni segir hins vegar að það sé ekkert vit í því að hafa börn á leikskóla lengur en sex tíma. Lausnin sé ekki að geyma börnin á leikskólum heldur að stytta vinnu fullorðna fólksins. „Ég er nú ekki þekkur fyrir að hrósa íhaldinu eða Kópavogi. En ég fagna þessu. Loksins kemur að einhverju leyti eitthvað raunhæft skref í þessum málum. Sex tímar fríir og hitt rukkað upp í topp. Í mínu sveitarfélagi hafa menn rekið leikskólakerfið eftir höfði Samtaka Atvinnulífsins. Það er bæði kostnaðarsamt og veikir starfið,“ segir Máni á Facebook.
Hann segir að fólk verði að átta sig á því að leikskóli sé ekki geymsla fyrir börn. „Það er einmitt fátt sem fer meira í taugarnar á mér en stjórnmálamenn sem lofa eða heimta fleiri leikskólapláss en eru ekki til í að hækka laun starfsfólks í leikskólum. Foreldrar þurfa að fara skilja það að leikskóli er ekki geymsla fyrir börn. Þetta er fjárhagslega skynsöm og fjölskylduvæn hugmynd.