Veðurstofan hefur birt appelsínugula viðvörun fyrir allt Ísland á morgun.
Brjálað veður, stormur og mikil úrkoma, skellur á höfuðborgarbúum um klukkan 14 og síðan færist illviðrið um allt land fram á aðra nótt.
Vindurinn verður að suðvestan. Meðalvindhraði gæti náð 30 metrum á sekúndu og 45 metrum í hviðum. Annar skammvinnur hvellur gæti orðið á fimmtudagsmorgun.
Veðurfræðingar segja að mjög djúp lægð valdi þessu sem gæti orðið á pari við þá sem sumir minnast enn frá mars 2015 þegar malbik fauk af vegum.
Á mbl. is segir Óli þór veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurður hvar veðrið verði verst:
„Ég myndi halda að um tíma verði verulega ógirnilegt veður á norðanverðu Snæfellsnesi. Bæði verður gríðarlega mikil úrkoma og mikill vindur. Undir Eyjafjöllum verður gríðarleg úrkoma og á öllu Suðausturlandi verður óhemjumikil úrkoma ásamt hvassviðri. Þá verður veður mjög slæmt á Tröllaskaganum þar sem vindhviðurnar verða mestar og á sunnanverðum Austfjörðum má reikna með mikilli úrkomu og ansi hvössum vindi.“