Ungt fólk fátækara og vansælla eftir 12 ár af hægri efnahagsstjórn -„Hamingja fer áfram dvínandi“

Í nýjustu útgáfu Talnabrunns, fréttabréfi Landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, kemur fram að hamingja Íslendinga fer dvínandi og fjárhagsörðugleikar fara versnandi.

Mikill áfellisdómur væri þetta fyrir nokkurt samfélag, ef litið væri á stöðu mála með hlutlægum hætti.

Niðurstöðurnar koma kannski engum á óvart sem lifir og hrærist í þessu samfélagi undanfarin misseri, en dýrtíðarkrísan hefur sannarlega tekið sinn toll á okkur öllum. Leiguverð voru gríðarlega há en hafa samt hækkað gífurlega hratt undanfarið hálft árið. Verðbólgan hækkar verð matarkörfunnar í hverri viku. Fátækt eykst og dýpkar fyrir þá sem voru fátækir fyrir og fátækt barna fer vaxandi.

Þróunin er langtum verri fyrir yngri kynslóðir eins og sjá má í þessu grafi úr tölublaði Talnabrunns:

Aukning þeirra sem eiga við fjárhagsvanda að eiga er langtum meiri meðal yngri kynslóða

Meðal helstu niðurstaðna í þessu fjórða tölublaði Talnabrunns á árinu kemur fram að þeim fjölgi sem eiga erfitt með að ná endum saman. Einnig að þeir sem eru í slíkri stöðu mælast verr í öllum hinum mælingunum sem skoðaðar voru í samantekt Talnabrunns:

  • Þau sem eiga erfitt með að ná endum saman meta andlega heilsu sína mun lakari en þau sem eiga auðvelt með það, glíma oftar við mikla streitu í daglegu lífi, fá síður nægan svefn, finna oftar fyrir einmanaleika, eru síður hamingjusöm og upplifa minni velsæld.
  • Ungu fólki líður almennt verr en eldra fólki. Ungt fólk finnur einnig oftar fyrir einmanaleika, mikilli streitu í daglegu lífi, metur andlega heilsu sína verr, er síður hamingjusamt og upplifir minni velsæld en þau sem eldri eru.
  • Heilt yfir meta færri andlega heilsu sína góða en áður. Ungar konur á aldrinum 18-24 ára meta andlega heilsu sína verri en aðrir hópar.
  • Hamingja fer áfram dvínandi, þeim fækkar sem telja sig mjög hamingjusöm.

Blaðamaður hvetur lesendur til að staldra aðeins við síðustu setninguna og lesa aftur:

„Hamingja fer áfram dvínandi, þeim fækkar sem telja sig mjög hamingjusöm.“

Ansi svört staða.

Mikill kynslóðarmunur í velsæld og vansæld

Þessi þróun er ekki ný af nálinni heldur má merkja hana mörg ár aftur í tímann og sömuleiðis má finna sama mynstur víða í hinum vestræna heimi. Eldri kynslóðir, fólk af hinum svokölluðu „boomer“-kynslóðum, standa mun betur að vígi, eiga eignir og lifa mun öruggara lífi en ungt fólk, enda gat það vænst þess að vinna fulla vinnu og geta þannig átt fyrir því að kaupa sér fasteign þegar það var ungt.

Ungt fólk í dag á litla möguleika til þess að kaupa sína fyrstu fasteign, án aðstoðar tekjumeiri eldri kynslóða foreldra sinna, er fast á óöruggum leigumarkaði sem gleypir allar þeirra tekjur í vaxandi mæli og veldur mikilli streitu og sér ekki fram á mörg tækifæri í framtíðinni önnur en þau að þurfa að vinna fleiri en eina vinnu til þess eins að búa við lakari kjör en foreldrar þeirra gerðu á sama aldri.

Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri, en sannarlega litast aðstæður hér á landi af séríslenskum breytum, svo sem sögulegum erfiðleika við að berja niður verðbólgu, en einnig hins hryllilega íslenska leigumarkaðar sem á vart sinn líka í heiminum hvað varðar skort á framboði, hækkanir á verði og yfirráð fjárfesta.

Þannig hafa fjárfestar og tekjuhærra fólk, sem á fleira en eina eign, sölsað undir sig rúmlega 80% af öllum nýbyggðum eignum það sem af er þessu ári. Gangi unga fólkinu okkar vel að keppa við slíkt ofurafl.

Niðurstaðan er því sú að unga fólkið á við langtum meiri erfiðleika að eiga en fyrri kynslóðir þegar þær voru á sama aldri, það á erfiðara með að ná endum saman, þarf að borga langtum meira fyrir húsnæði, hefur fábrotin atvinnutækifæri að lokinni menntun, annað en láglaunastörf í ferðamannaiðnaði eða fiski og er bæði vansælla, kvíðnara, stressaðra og óheilbrigðara en áður.

Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, setti þetta málefni mikið á oddinn í kosningabaráttu sinni og talaði mjög mikið og oft um óhamingju og vansæld ungs fólks, sem samfélagslegt vandamál sem þurfi að laga. Verði það erindi hennar áfram í forgangi þegar hún tekur við embætti í ágúst þá má vona að árangur verði af því, ekki er vanþörf á.

Hægri efnahagsstjórn í tæp 12 ár

Geta má þess að frá og með árinu 2013 hafa hægri stjórnir farið með völd í landinu og þá sérstaklega efnahagsstjórn, með fjármálaráðuneyti sem hefur annaðhvort verið í höndunum á Sjálfstæðisflokki, Viðreisn um stund og nú Framsóknaflokks. Bjarni Benediktsson, nú forsætisráðherra, hefur lengst af á þessu tæplega 12 ára tímabili farið með embætti fjármálaráðherra. Framsóknarflokkurinn hefur mótað húsnæðisstefnuna og skipbrot hennar. Síðustu 7 árin hafa Vinstri græn svo fórnað öllum kröfum um efnahagslegt réttlæti með því að veita fjármálastefnu Bjarna og innviðastefnu Sigurðar Inga framgengi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí