Al Jazeera hóf ítarlega umfjöllun um innri mál breska Verkamannaflokksins í sjónvarpsútsendingu á besta útsendingartíma í gærkvöldi. Miðillinn hefur undir höndum mikið magn skjala úr innra starfi flokksins sem sýna það svart á hvítu að áhrifamikil öfl innan flokksins, sérstaklega hjá yfirstjórn flokksins, notuðu blekkingar, mannorðsárásir og skipulagðar ófrægingarárásir til að grafa undan forystu Jeremy Corbyn.
Eftir að Corbyn var kosinn formaður breska Verkamannaflokksins með miklum yfirburðum 2015 varð strax ljóst að hægriöflin í flokknum myndu aldrei sætta sig við forystu hans. Það sem ekki hefur verið ljóst fyrr en nú var hversu langt hægriöflin væru tilbúin að ganga í mannorðsárásum, lygum og fölsunum til að grafa undan forystu Corbyn. Skjölin sem Al Jazeera hefur nú fengið sanna það að stór hluti starfsfólks flokksins og þingmanna sveifst einskis til að reyna að hrekja leiðtogan frá og nýtti sér stuðnings frá nær öllum bresku fjölmiðlunum, frá BBC til Daily Mail, The Sun til The Guardian.
Corbyn fór ekki í felur með að hann vildi gera upp forystutíð Tony Blair og stuðningsmanna hans og færa sósíalismann aftur til öndvegis í flokknum. Þetta sætti stjórnmálaelítan í Bretlandi sig alls ekki við og hóf þegar undirróður gegn Corbyn og stuðningsmönnum hans. Hér eru nokkur dæmi. Í Wallasey, kjördæmi rétt við Liverpool voru flokksmenn sakaðir um fordóma gegn samkynhneigðum á fundi þar sem þingmaður þeirra Angela Eagle var ekki viðstödd. Eagle er lesbía.
Skjölin og viðtöl við flokksmenn sýna að ásakanirnar voru allar tilbúningur og settar fram til að grafa undan stuðningsmönnum Corbyn. Í Liverpool var borgarstjóraefni flokksins ýtt til hliðar með undirróðri þrátt fyrir gífurlegan stuðnings meðal almennra flokksmanna. Í Brighton voru stuðningmenn Corbyn kosnir með miklum meirihluta í héraðsstjórnina en kosningarnar ógiltar af lögfræðingi flokksins byggt á ásökunum sem sýnt hefur verið fram á að voru ósannar. Þar var líka ráðist hart að mannorði flokksmanna með hótunum og lygum þannig að margir hafa ekki enn jafnað sig. Allt þetta er stutt með vísun í innri skjöl flokksins.
Yfirstjórn Verkamannaflokksins neitar að tjá sig um einstök mál en hafnar því að hafa unnið ólöglega í málefnum einstakra flokksmanna og flokksdeilda. Jeremy Corbyn hefur líka tjáð sig um undirróðurinn gegn sér, m.a. í einskonar ávarpi á Double Down News:
Fyrsti þátturinn í þáttaröð Al Jazeera er nú komið á netið. Sjá má fyrsta þáttinn í spilaranum hér að ofan. Næstu tveir þættir munu verða sýndir á næstu tveim vikum og mun Samstöðin fjalla um þá þegar þeir verða sýndir. Næst verður fjallað um ásakanir um gyðingahatur í flokknum.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga