Börn, fimmtán ára og yngri, borga hærri skatta en fullorðnir af tekjum allt að 208.500 kr. á mánuði. Fá börn hafa tekjur umfram þá upphæð. Reyndin er því að börn borga hærri skatta en fullorðnir. Eins ótrúlega og það hljómar.
Börn fimmtán ára og yngri eru í sérstökum skattflokki. Þau hafa frítekjumark upp á 150 þús. kr. á ári og borga eftir það 6% skatt. Við sextán ára aldurinn njóta þau fyrst persónuafsláttar og við það færist frítekjumarkið upp í rúmlega 2.057 þús. kr. árstekjur, en 31,45% skattur leggst á tekjur umfram þá upphæð.
Hvernig kemur þetta út fyrir börnin?
Segjum að fimmtán ára barn leiki í vinsælu leikriti og fái fyrir það 2 m.kr. laun yfir árið, 166 þús. kr. á mánuði. Ef barnið borgaði skatt eins og fullorðinn skattborgari myndi það engan skatt borga, þetta eru tekjur undir skattleysismörkum. En þar sem barnið er ekki skattborgari með persónuafslátt heldur er skattlagt sem barn borgar það tæplega 110 þús. kr. í skatt af þessum 2 milljónum.
Það er ekki fyrr en barnið er komið með árstekjur upp á 2,5 m.kr. eða um 208.500 kr. á mánuði sem það borgar minni skatt en ef það væri fullorðinn einstaklingur. Það þarf ekki að taka fram á fá börn erum með slíkar tekjur, ef einhver.
Hverjum datt þessi vitleysa í hug? Að taka meiri skatt af börnum sem hafa lágar tekjur, sem á við um flest börn, en minni skatt af börnum sem eru með tekjur nærri lágmarks lífeyri og þar yfir?
Barn sem er með 100 þús. kr. á mánuði borgar rúmar 60 þús. kr. í skatt á ári meðan fullorðin manneskja með þessar tekjur borgaði ekkert. Og getur fært maka sínum tæplega 270 þús. kr. í skattaafslátt þar sem flytja má ónýttan persónuafslátt milli maka.
Börn og foreldrar þeirra ættu því strax að gera kröfu um að börn verði skattlögð eins og fullorðið fólk. Það er til skammar að skattleggja börn meira en fullorðna.