Mánaðarleg útgjöld heimila hækkað um 128 þúsund á einu ári

Dýrtíðin 22. sep 2022

Útgjöld fjölskyldu með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 milljón króna lán hafa hækkað um 128.607 kr. á mánuði. Mánaðarleg útgjöld hjá einstaklingi í eigin húsnæði með 30 milljón króna lán hafa hækkað um 71.674 kr. Þetta kemur fram í úttekt Alþýðusambandsins á útgjaldaaukningu almennings á síðustu tólf mánuðum.

Í úttekt Verðlagseftirlits ASÍ eru tekið saman dæmi um hvernig verðlagshækkanir á liðnu ári (ágúst ’21-’22) geta birst í mánaðarlegum útgjöldum heimilanna. Dæmin sýna hvernig hækkanir á nokkrum helstu kostnaðarliðum (húsnæði, samgöngum, matvöru og heimilisbúnaði) birtast í mánaðarlegum útgjöldum hjá mismunandi heimilisgerðum.

Um þessar mundir verða heimili fyrir þungum áhrifum af verðlagshækkunum og áhrifum af hækkun vaxta. Verðbólga mælist á breiðum grunni, þ.e. margir vöruflokkar hafa hækkað í verði en verðhækkanir hafa að mestu leyti verið bundnar við vörur sem má flokka sem nauðsynjavöru. Slíkar verðhækkanir koma í veg fyrir að fólk geti breytt kauphegðun til að draga úr áhrifum verðbólgunnar á fjárhag heimilisins.

Verðhækkanir á nauðsynjavöru snerta alla en lægri tekjuhópar verða hvað verst úti. Áhrif verðhækkana á heimilin ráðast þó af fleiri þáttum, t.d. hvort um leigjanda eða eigenda húsnæðis eru að ræða, hversu mikil skuldsetning er, hvaða lánsform er notað, hvenær lán var tekið og hver vaxtakjör eru.

Þessi dæmi eru byggð á verðhækkunum á völdum útgjaldaliðum og útgjöldum mismunandi heimilisgerða á leigumarkaði og í eigin húsnæði. Dæmin sýna að mánaðarlega útgjaldaaukningu upp á 26 þúsund krónur fyrir einstakling í leiguhúsnæði og upp í 127 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði.

50 þúsund króna útgjaldaaukning á mánuði hjá fjölskyldu í leiguhúsnæði

Ef við skoðum hvernig verðhækkanir síðasta árs getur birst í útgjöldum þeirra sem eru á leigumarkaði má sjá að mánaðarleg útgjöld fjölskyldu sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum sem leigir 120 fm íbúð í Reykjavík hafa hækkað um 49.458 kr. á einu ári. Á sama tímabili hafa mánaðarleg útgjöld einstæðs foreldris með tvö börn sem leigir 80 fm íbúð í Reykjavík hækkað um 34.593 kr. Þá greiðir einstaklingur sem leigir stúdíóíbúð í Reykjavík 26.165 kr. meira í helstu kostnaðarliði í dag en fyrir ári síðan. Hækkun á leigu miðast við leiguvísitölu sem mælir verðþróun á nýjum leigusamningum og endurspegla tölurnar meðalhækkun á tilteknum leiguíbúðum í Reykjavík. Dæmin byggja á áætluðum meðalútgjöldum og verðþróun úr vísitölu neysluverðs. Neðst í fréttinni má lesa um forsendur fyrir útreikningunum.

Dæmin í fréttinni sýna breytingar á nokkrum af helstu útgjaldaliðum heimilanna (húsnæði, samgöngum, matvöru, heimilisbúnaði) auk breytinga á gjöldum fyrir leikskóla og skóladagvistun. Þessi dæmi innihalda ekki verðhækkanir á ýmsum öðrum útgjaldaliðum eins og rafmagni og hita, fasteignagjöldum, hársnyrtingu, hreinlætis- og snyrtivörum, bankakostnaði, íþróttum og tómstundum. Það má því gera ráð fyrir að útgjaldaaukning heimilanna sé í mörgum tilvikum enn meiri en þessi dæmi sýna. Neðar í fréttinni má lesa um verðþróun og verðhækkanir á ýmsum útgjaldaliðum.

Allt að 128 þúsund króna mánaðarleg útgjaldaaukning hjá fjölskyldu i í eigin húsnæði

Útgjöld heimila sem eiga húsnæði og eru með óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa einnig aukist mikið. Þannig hafa útgjöld fjölskyldu með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 milljón króna lán hafa hækkað um 128.607 kr. á mánuði. Mánaðarleg útgjöld hjá einstaklingi í eigin húsnæði með 30 milljón króna lán hafa hækkað um 71.674 kr. Að sama skapi greiðir einstætt foreldri með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 39 milljón króna lán 105.886 kr. meira á mánuði í helstu útgjaldaliði en á sama tíma í fyrra. Hækkun á húsnæðislánum miðast við óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum sem voru endurfjármögnuð í byrjun árs 2021.

Verðþróun

Verðbólga mælist 9,7% í ágúst 2022. Frá því að Lífskjarasamningarnir tóku gildi, í apríl 2019, hefur vísitala neysluverðs hefur hækkað um 18,9%. Verðbólga mælist á breiðum grunni, þ.e. margir vöruflokkar hafa hækkað í verði en verðhækkanir á húsnæði bensíni, mat- og drykkjarvöru vega þyngst.

Verðhækkanir á húsnæði, hrávöru og liðum tengdum ferðaþjónustu vega þungt í verðbólgunni

Ef breytingar á vísitölu neysluverðs eru skoðaðar út frá eðli og uppruna má sjá að hækkun á húsnæði vegur þyngst, bæði ef litið er til eins árs og aftur til gildistöku Lífskjarasamninga. Einnig eru veruleg áhrif af hækkun hrávöruverðs og uppgangi í ferðaþjónustu sem endurspeglast í hækkun á flugfargjöldum, verði á veitingastöðum og gistiheimilum sem tilheyra liðnum „önnur þjónusta“ en einnig í bensínverði og verði á matvöru.

Frá undirritun lífskjarasamninga (apríl 2019) hefur verð á bensíni hefur hækkað mest (41,5%) en þar á eftir kemur húsnæði ( 32,5%), búvara (23%) og önnur innlend mat- og drykkjarvara (17,6%). Innlend vara (matvara og önnur innlend vara) hefur hækkað meira en innflutt vara bæði ef horft er aftur til undirritun Lífskjarasamninga og eitt ár aftur í tímann. Þá hefur verð á opinberri þjónustu hækkað töluvert á árinu (ágúst 2021-2022) eða 5,7% en um 10,5% sé horft aftur til apríl 2019.

Á eftir húsnæði og bensíni vega verðhækkanir á mat- og drykkjarvöru þyngst

Ef yfirflokkar í vísitölu neysluverðs eru skoðaðir má sjá að hækkanir á húsnæði vega þyngst í verðbólgunni á liðnu ári en einnig á tímabilinu frá því að lífskjarasamningar tóku gildi. Næst þyngst vega hækkanir á liðnum ferðir og flutningar sem rekja má til hærra bensínverðs. Þar á eftir kemur hækkun á mat- og drykkjarvöru sem er þriðji stærsti áhrifaþátturinn í vísitölunni.

Þannig hefur verð á húsnæði, hita og rafmagni hækkað um 15,8% á einu ári, verð mat- og drykkjarvöru hækkað um 8,6%, verð á ferðum og flutningum um 14,9%, verð á hótelum og veitingastöðum um 8,4% og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 3,6%. Verðhækkanirnar eru meiri frá apríl 2019 en minni munur er á verðhækkunum eftir flokkum á því tímabili. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hefur t.d. hækkað um 16% á því tímabili samanborið við 18% hækkun á mat- og drykkjarvöru.

Lesa má úttektina á vef ASÍ: Mánaðarleg útgjöld heimila hækkað um 25-127 þúsund krónur á einu ári

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí