Pundið féll eftir að ríkisstjórnin lækkaði enn skatta á hin ríku

Ríkisfjármál 24. sep 2022

Breska pundið hélt áfram að falla í dag og má rekja það í stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar eftir að Liz Truss tók við sem forsætisráðherra. Frá því hún flutti inn í Downingsstræti hefur pundið fallið um 7,4%. Þar af 3,5% í dag og 2% eftir að Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra kynnti mikla skattalækkun í þinginu. Fall pundsins er viðbrögð við stefnu Truss, sem er að reka ríkissjóð með miklum halla til að auka við auð hinna ríku.

Kwarteng sagði að allir myndu njóta skattalækkana. Reyndin er að 5% hinna tekjulægstu munu fá um 3.500 kr. í skattalækkun á næsta ári á meðan 5% hinna tekjuhæstu munu fá 1.457 þús. kr.

Fólk með 265 þús. kr. á mánuði mun fá skattalækkun upp á tvö þúsund krónur á meðan þau sem eru með 13,2 m.kr. á mánuði fá til sín 730 þús. kr.

Vitandi að aðgerðirnar myndu auka enn á ójöfnuð í Bretlandi sagði Kwarteng í þinginu í dag að það væru kominn tími til að umræðan færi frá kröfunni um jöfnuð yfir í aðgerðum til að auka vöxt. Stefnan er því í anda Margaret Thatcher sem eins og annað nýfrjálshyggjufólk hélt því fram að það myndi ýta undir hagvöxt að lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn.

Dæmin hér að ofan eru um tekjuskatt einstaklinga en í pakkanum er líka lækkun tekjuskatts fyrirtækja og aðrar aðgerðir til að flytja fé frá hinu opinbera til fyrirtækja og fjármagns. Breytingar Kwarteng á fjárlögunum eru metin á 45 milljarða punda í töpuðum tekjum. Það eru 7.140 milljarðar króna eða 40 milljarðar króna miðað við höfðatölu.

Myndin er af Liz Truss og Kwasi Kwarteng í þinginu í dag, í umræðum um skattalækkanir á meðan pundið féll.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí