Verkalýðshreyfingin þarf að beita sér af hörku í komandi kjarasamningum til að breyta þeirri mynd sem við blasir í fjárlögum næsta árs, skrifar Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðinur Eflingar í grein í Kjarnanum í dag.
„Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er boðað aðhald á útgjaldahlið, sem sagt er að gagnist í baráttunni við verðbólguna. Þetta aðhald bitnar illa á mörgum meginþáttum velferðarmálanna og kemur fram í því að útgjöld eru almennt aukin mun minna en nemur verðbólgu á þessu ári (8,8%) og jafnframt minna en áætluð verðbólga á næsta ári (6,7%). Og á sumum sviðum eru útgjöld beinlínis lækkuð að krónutölu,“ skrifar Stefán.
Og hann heldur áfram: „Þegar heildarbreyting útgjalda ríkissjóðs (A1-hluta) eftir málefnum er skoðuð kemur fram að hún eykst um 6,3% frá fjárlögum síðasta árs og um 3,4% frá frá áætlaðri útkomu þessa árs. Það er umtalsvert minna en verðbólgan sem nú ríkir og vænt verðbólgu næsta árs. Útgjöld til velferðarmála eru stærsti hluti opinberra útgjalda.
Þarna er því um að ræða verulega breytingu á raunfjármögnun opinbera velferðarkerfisins. Mun það skipta máli til að ná niður verðbólgunni? Nei, það mun ekki hafa nein áhrif á stríðið í Úkraínu né á truflanir í aðfangalínum heimshagkerfisins, en áhrif af því berast okkur í tímabundinni innfluttri verðbólgu. Þetta mun heldur ekki hafa nein umtalsverð áhrif á helstu innlendu uppsprettu verðbólgunnar, sem er óvenju mikil hækkun húsnæðiskostnaðar.
Þetta mun einungis rýra kjör þorra þeirra sem stóla á velferðarkerfið. Helsta undantekningin er að boðað er að bætur almannatrygginga til öryrkja og ellilífeyrisþega muni halda verðgildi sínu með 9% hækkun. Þá er innifalin í þeirri tölu 3% hækkun sem kom í vor þannig að um áramótin mun einungis bætast við 6% hækkun (Raunar er athyglisvert að ríkisstjórnin tvítelur þessa 3% hækkun bóta almannatrygginga sem kynnt var sl. vor sem sérstök uppbót til lífeyrisþega vegna þrenginga af völdum verðbólgunnar. Svo er þetta aftur talið núna sem þriðjungur þeirrar hækkunar sem boðuð er um áramótin næstu. Réttara hefði verið að segja bætur almannatrygginga hækka um 6% í fjárlögunum frá því sem er á árinu 2022. Húsaleigubætur eru einnig tvítaldar á svipaðan hátt. Þetta eru heldur leiðinlegar bókhaldsbrellur til að fegra framlag ríkisins). Kaupmáttur þessara bóta mun því rýrna þegar líður á næsta ár í þeirri verðbólgu sem þá verður um 6,7% skv. spá Seðlabankans.“
Hér má lesa grein Stefáns: Ríkisstjórnin vegur að velferðarríkinu