Áhættufjárfestingar ríkisins í uppnámi

Ríkisfjármál 2. okt 2022

Milljarðafjárfestingar ríkisins í áhættusjóðum gætu verið í uppnámi þar sem tæknifyrirtæki hafa undanfarið fallið í verði á hlutabréfamörkuðum og fá ný verið skráð. Verðfallið veldur því að keðjan sem ríkið hefur stólað á hefur rofnað, að eldri stærri fyrirtæki kaupi upp yngri minni. En þótt hún haldi er lítil trygging fyrir að tæknifyrirtæki haldi starfsemi sinni eða hugverkarétti á Íslandi eins og mörg dæmi sanna.

Kría er nýtilkomið framlag ríkisins til hinnar svokölluðu sprotasenu þar sem milljörðum er varið í fjárfestingar á litlum tæknifyrirtækjum sem vonast er til að stækki hratt og verði hluti að útflutningsstoðum landsins. Til að fjárfesting ríkisins skili sér til baka þarf eitt eða fleiri fyrirtæki að ná miklum árangri á erlendri grundu. Samkeppnin er alþjóðleg og skipta því aðstæður ytra miklu máli.

Á næstunni mun Kría afgreiða umsóknir fyrir sitt annað starfsár. Leið Kríu til að styðja tæknifyrirtæki er að auka umfang einkarekinna fjárfestingarsjóða sem fjárfesta áfram í litlum einkareknum fyrirtækjum með stór markmið en litlar tekjur. Hver og ein fjárfesting Kríu í öðrum sjóði nemur allt að tveimur milljörðum og að hámarki þriðjungs eignarhluta.

Umfang skráninga tæknifyrirtækja á hlutabréfamarkað. Það var 73 milljarðar dollara í fyrr en minna en einn milljarður í ár.

Á bak við fjárfestingarsjóðina sem Kría fjármagnar eru einnig lífeyrissjóðir landsmanna með stóra eignarhluti. Sprotafyrirtækin hafa í mörgum tilfellum ekki neinar tekjur og hefur sagan sýnt að fæstir sprotar ná vextinum sem er grundvöllur fjárfestinganna.

Vonast er til að fáar góðar fjárfestingar muni bæta upp tap á tugum annara fjárfestinga. Markmið tæknifjárfesta er yfirleitt að eignast skráð risafélag á borð við Facebook eða Google til að réttlæta áhættusamar fjárfestingar í minni fyrirtækjum. Þessi fjárfestingarstefna þróaðist í Kísildal Bandaríkjanna sem naut góðs af rausnarlegum og kröfuhörðum opinberum innkaupa varnarmálastofnana í kringum Kalda stríðið.

En nú hafa tæknifyrirtæki átt undir högg að sækja í kjölfar covid. Hlutabréf tæknirisanna í Bandaríkjunum hafa leitt dýfu félaga kauphalla. Hlutabréf Facebook og Netflix hafa hvor um sig fallið um 60% það sem af er ári, svo dæmi sé tekið. Og skráningar nýrra tæknifyrirtækja hafa þurrkast upp. Lengra er liðið síðan tæknifyrirtæki var skráð á markað en eftir hrunið 2008. Fjárfestar vilja sjá tíðar og vel heppnaðar skráningar tæknifyrirtækja á markað til að réttlæta áhættusamar fjárfestingar í minni fyrirtækjum. Ef kauphallirnar eru að hafna tæknifyrirtækjum getur það sett fjárfestingarferil minni tæknifyrirtækja í uppnám þegar fleiri og fleiri sjóðir kippa að sér höndunum, með minni og minni von um að annar stærri taki við keflinu þar sem skráning á markað er enda markmiðið.

Það væru góð tíðindi fyrir almenning ef Íslendingar eignuðust tæknifyrirtæki sem tekst að fara alla leið í skráningu í erlendri kauphöll. Þá má vænta tekna í erlendum gjaldeyri sem styrkir gengi krónunnar sem eykur kaupmátt almennings þegar starfsemi fyrirtækisins eykst í umfangi. Þetta er hins vegar langsótt markmið. Í rauninni er annað og hógværara markmið sem knýr fjárfestingar hérlendis.

Önnur leið fyrir sjóðina til að hagnast er að fylgja tæknifyrirtækjum í samruna við annað stærra fyrirtæki og ná þannig upphaflegri fjárfestingu til baka í sölunni. Þegar stærri tæknifyrirtæki sjá önnur minni í kringum sig vaxa hefur verið sterk tilhneiging til að kaupa þau út áður en þau ógna markaðsstöðu þeirra og sameina starfseminni sem er oftast í höfuðstöðvum erlendis. Þannig belgjast stóru skráðu tæknifyrirtækin út með sameiningum og styrkja fákeppnisstöðu sína. Salan á Instagram til Facebook var ein slík sala sem hefur verið gagnrýnd fyrir að veikja samkeppnismarkað samfélagsmiðla.

Sagan hefur sýnt að þegar þetta gerist hefur íslenska tæknifyrirtækið ekki endilega náð að festa ræturnar vel hérlendis til að tryggja það að störfin verði ekki lögð niður í kjölfarið. Það er í rauninni mjög lítið „íslenskt“ við mörg af þessum félögum sem tryggir að starfsemi fyrirtækisins verði uppspretta starfa, þekkingar og gjaldeyristekna ef því gengur vel. Móðurfélagið er oft á tíðum með skráningu í Delaware þar sem hugverk félagsins, hin raunverulegu verðmæti, eru skráð. Í kjölfarið, ef fyrirtækið vex, getur það leikið sér endalaust með skattlagningu, verðlagningu og tekjustreymi. Tæknifyrirtækin eru einmitt þau sem hafa verið hvað harðast gagnrýnd fyrir að færa eignarétt til og halda hagnaði niðri þar sem hin raunverulega starfsemi á sér stað. Það er í rauninni lítil sem engin trygging fyrir því að íslenskur almenningur njóti góðs af vexti tæknifyrirtækja þó að fjárfestarnir séu íslenskir.

Á þessari vegferð er þrátt fyrir þetta hægt að fá enn meiri stuðning ríkisins með beinum styrkjum frá Rannís sem og umdeildum endurgreiðslum á sköttum sem tengjast rannsóknum og þróun og hlaupa á milljörðum á hverju ári.

En aftur að Kríu. Árið 2021 fjárfesti Kría fyrir 2,2 milljarða í þremur sjóðum. Milljarðar munu áfram rata til nýstofnaðra tæknifyrirtækja sem dreymir um vera tekið yfir af erlendum tæknirisum á næstunni. Áhugavert verður að sjá hvort almenningur njóti góðs af áhættufjárfestingum ríkisins í kreppunni sem margir spá að sé á næsta leyti.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí