Um leið og Liz Truss sagði af sér fjölgaði mjög undirskriftum undir áskorun á Boris Johnson að bjóða sig fram sem leiðtoga Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra. Talið er líklegt að lýsi yfir vilja til að taka við innan stundar.
Í sumar var því haldið fram að Boris Johnson vildi helst af öllu að Liz Truss myndi sigra leiðtogakjörið. Ekki vegna þess að hann væri henni sammála eða hefði trú á henni, heldur þvert á móti. Sagt var að hann sæi tækifæri til endurkomu með því að flokkurinn kysi Truss. Hún myndi klúðra málum fljótt og vel og það myndi skapa tækifæri fyrir Boris.
Boris Johnson sagði af sér sem leiðtogi í sumar eftir röð hneykslismála sem þingmenn töldu aftra eðlilegum störfum ríkisstjórnar hans. Það vantraust kveikti nýtt leiðtogakjör sem leiddi Liz Truss til valda.
Þótt hugsanlega endurkoma Boris sé helsta umræðuefnið nú er eftir sem áður talið líklegast að annað hvort Rishi Sunak eða Penny Mordaunt verði fyrir valinu.
Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga