Líklega verður met þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar aldrei slegið. Og vonandi ekki. Vonandi verða þeir um aldur og æfi dýrustu menn Íslandssögunnar. En reikningurinn heldur áfram að lengjast. Nú síðast bættust 270 milljarðar króna á reikning þeirra félaga. Og þið þurfið að borga.
Augljósasta dæmið um þær byrðar sem almenningur þarf að bera vegna Davíðs og Halldórs er tap lífeyrissjóðanna vegna bankahrunsins, afleiðingar af einkavæðingu þeirra félaga á bönkunum. Tap lífeyrissjóðanna var á núvirði um 725 milljarðar króna, um 20% af eignum sjóðanna á þeim tíma.
Þetta tap skilur eftir sig holu í lífeyrissjóðunum, sem fyllist ekki. Ef við reiknum með að þetta fé hafi ekki tapast heldur verið ávaxtað á 3,5% raunvöxtum frá Hruni væru eignir lífeyrissjóðanna um 1.135 milljörðum króna hærri en þær eru. Og þetta er ekki ofmat, frá Hruni hefur meðaltals ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna verið 5,2%.
Bjarni Benediktsson hefur nú kynnt að tap almennings vegna laga um Íbúðalánasjóðs frá 2004, annarra bommertu sem ríkisstjórn Davíðs og Halldórs gerði. Bjarni segir tapið verða um 200 milljarðar króna til viðbótar við þá um 70 milljarða króna sem þegar er búið að borga til sjóðsins.
Tillaga Bjarna er að ríkissjóður taki á sig 47 milljarðar króna af þeim 200 milljörðum króna sem eftir standa, eða samtals 117 milljarða króna með því sem áður hafði verið greitt. En restin verði látin falla á eigendur skuldabréfa Íbúðalánasjóðs, sem að stærstu leyti eru lífeyrissjóðir.
Þá lækkar eign lífeyrissjóðanna um 153 milljarða eða svo. Það gera um 2,2% miðað við eign sjóðanna um síðustu áramót. Þrátt fyrir iðgjöld hefur sú eign ekki hækkað á þessu ári heldur þvert á móti lækkað vegna falls hlutabréfa hér heima og erlendis.
En ef við miðum við stöðuna um síðustu ármóta þá má reikna með að eign sjóðanna verði um 6.585 milljarðar eftir að hafa tekið á sig tapið frá Bjarna. Og ef við tökum með tap sjóðanna vegna Hrunsins og glataða ávöxtun frá þeim tíma þá vantar í sjóðina um 1.287 milljarða króna vegna einkavæðingaæfinga þeirra Davíðs og Halldórs.
Ef við brjótum þessa fjárhæð niður á íbúa gerir þetta um 3,4 m.kr. á mann. En sú upphæð er í raun hærri því þetta er fé sem annars hefði ávaxtast og fólk fengið greitt úr sem lífeyri. Sé miðað við stöðu lífeyrissjóðanna í dag hafa þeir Davíð og Halldór skert þá um 16,3%. Sá sem fær 300 þús. kr. út úr sínum lífeyrissjóð og á erfitt með að komast af hefði fengið 358 þús. kr. ef ekki væri fyrir tapið sem þeir Davíð og Halldór kölluðu yfir sjóðina.
Og þá á eftir að telja til skaðann sem almenningur varð fyrir þegar ríkissjóður þurfti að reiða fram 117 milljarða króna vegna taps Íbúðalánasjóðs.
Og hér hefur aðeins verið tekin dæmi af tapi lífeyrissjóðanna og Íbúðalánasjóðs vegna aðgerða ríkisstjórnar Davíðs og Halldórs. Það má týna margt annað til. Stórkostlega lækkun skatta á auðugasta fólkið og gjafakvótakerfið sem hvort tveggja færði gríðarlegan auð frá fjöldanum til hinna fáu. Niðurbrot innviða og grunnkerfa sem skaðað hefur velferð tug þúsunda fjölskyldna. Eyðilegging Verkamannabústaðakerfisins og veiking félagslegs leiguhúsnæðis sveitarfélaganna. Einkavæðingu ríkisfyrirtækja, skipulagða veikingu skatteftirlits, skipan flokksgæðinga í dómskerfi og mikilvægustu stöðu stjórnsýslunnar og svona má lengi telja.
Það er mikilvægt að hafa þetta í huga nú þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætlast til að þið sættið ykkur við að greiða 200 milljarða króna til viðbótar fyrir bommertur ríkisstjórnar Davíðs og Halldórs. Reikningurinn sem þið munið fá á næstu vikum er um 525 þús. kr. á mann, 2,1 m.k.r á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
Þið komist ekki hjá að borga þetta. En það er þó gott að vita fyrir hvað þið eruð að borga. Þið eruð að borga skuldir óreiðumannanna tveggja, Davíðs og Halldórs.
Myndin er af forsíðu DV daginn eftir að Davíð og Halldór mynduðu ríkisstjórn 18. apríl 1995. Sú ríkisstjórn átti eftir að sitja í tólf ár og hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag. Og hún hefur enn áhrif, reikningarnir eru enn að berast.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga