Það er óhætt að segja að Samstöðin styrkist hratt þessa dagana. Eftir að haustdagskráin byrjaði og fréttasíða var opnuð hafa heimsóknir á vef Samstöðvarinnar margfaldast og félögum í Alþýðufélaginu fjölgað.
Heimsóknir á vef Samstöðvarinnar hafa tekið kipp frá því að fréttasíðan opnaði þar fyrir viku. Flettingar eru komnar yfir sjö þúsund á dag, sem telst gott af nýliða í fréttum sem ekki hefur efni á að auglýsa. Eins og sjá má á fréttasíðunni eru fréttirnar margar og fjölbreytilegar og með annað sjónarhorn og tón en fréttir megisstraumsmiðlanna.
Samstöðin er tilrauna- og nýsköpunarmiðill. Hún sendir t.d. út sjónvarpsdagskrá á vefnum, dreifikerfið er samfélagsmiðlar og hlaðvarpsveitur. Fréttir Samstöðvarinnar eru að nokkru leyti unnar af fréttariturum sem afla frétta og skrifa þær í sjálfboðavinnu, oftast fólk sem hvort sem er fylgist vel með viðkomandi málaflokki. Samstöðin er því alþýðublað, unnið af alþýðunni fyrir alþýðuna. Ef þú hefur áhuga á fréttaskrifum getur þú sent skeyti á samstodin@samstodin.is og tilgreint áhugasvið þitt. Það er ekki verið að leita að leiðurum eða skoðanapistlum, samfélagsmiðlar henta best til slíks, heldur fréttum.
Netfréttirnar eru helsta áhersla Samstöðvarinnar þessa dagana auk Rauða borðsins, sem frétta- og umræðuþáttur, sem er sendur út öll mánudags- til fimmtudagskvöld kl. 20, auk helgi-spjalls á föstudögum kl. 17. Markmiðið er að Rauða borðið þróist upp í öflugan daglegan fréttaþátt þegar Samstöðin hefur náð að eflast.
Rauður raunveruleiki er á dagskrá á mánudagskvöldum kl. 21 og Work in Progress á laugardögum kl. 15. Aðrir þættir munu fljótlega hefja göngu sína. Rauða borðið og Rauður raunveruleiki eru aðgengileg á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Við óskum eftir aðstoð þinni við að byggja upp dreifikerfið fyrir útsendingu svo fleiri geti séð þætti Samstöðvarinnar. Það gerir þú með því að læka síður stöðvarinnar á youtube og Facebook.
Samstöðin er rekin fyrir styrki og framlög félaga í Alþýðufélaginu. Þú getur gerst félagi í Alþýðufélaginu og greitt einskonar áskrift hér: Skráning félaga.
Í dag hafa félagar í Alþýðufélaginu skráð sig fyrir greiðslum upp á rúma hálfa milljón króna á mánuði, en sú upphæð hefur hækkað hratt á undanförnum dögum.
Ef fólk efla Samstöðina getur það því gert allskonar, allt eftir getu og áhuga. Fólk getur byggt upp dreifikerfið með lækum, dreift fréttum og þáttum, skrifað fréttir eða borgað einskonar áskrift.
Í spilaranum hér að ofan er viðtal við Örn Sigfússon útigangsmann, en frétt um þetta viðtal er sú frétt sem var mest lesin á Samstöðinni í síðustu viku.