Efnahagsaðgerðum ríkisstjórnar Liz Truss og vaxandi framfærslukreppu var mótmælt í fimmtíu borgum Bretlands í dag að frumkvæði baráttusamtakanna Enough is Enough! Mótmælin voru líka stuðningur við verkfall starfsmanna járnbrautanna og póstsins. Kröfurnar voru um hækkun launa og lækkun orkukostnaðar, en einnig um að allir hafi öruggt húsnæði og nægan mat og að hin ríku yrði skattlögð.
Meðal ræðumanna í London var Mike Lynch, formaður stéttarfélags flutningastarfsmanna, sem hafa verið í verkfallsaðgerðum síðan í sumar. Liz Truss hefur boðað frumvarp sem þrengir verkfallsréttinn og myndi gera aðgerðir Lynch og félaga ólöglegar. Hann sagðist í viðtali ekki óttast ráðagerðir ríkisstjórnar Truss. Stéttarfélag flutningastarfsmanna hefðu barist gegn svipuðum fyrirætlunum Margaret Thatcher og haft sigur og félagið muni líka sigra Liz Truss. Lynch sagði að RMT, stéttarfélag flutningastarfsmanna, yrði til löngu eftir að Liz Truss væri gleymd.
Viðtal við Mick Lynch áður en hann flutti ræðu sína má sjá hér, en hann dregur vel saman kröfur dagsins og stöðuna í verkfallinu. Hann skýrir líka út stuðning sinn við Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins, sem enn á eftir að lýsa yfir stuðningi við baráttu verkalýðsfélaganna og almennings. En Starmer er skárri kostur en Liz Truss, segir Lynch, og það sé mikilvægt að koma ríkisstjórn hennar frá.
Enough is Enough, sem kalla mætti Það er komið nóg! upp á íslensku, er skipulögð herferð gegn framfærslukreppunni. Að baki standa stéttarfélög, stjórnmálfólk, baráttusamtök gegn fátækt og fleiri eða eins og sagt er á vef baráttunnar: Samtökin eru stofnuð af verkalýðsfélögum og almannasamtökum sem eru staðráðin í að berjast gegn eymdinni sem þröngvað er upp á milljónir manna með hækkandi verðlagi, lágum launum, fátækt, lélegu húsnæði og samfélagi sem mótað er eftir hagsmunum fámennrar auðugrar elítu.
Kröfur Enough is Enough eru einfaldar og skýrar:
- Hækkun raunlauna
- Lækkun orkureikninga
- Útrýmum fátækt
- Öruggt húsnæði fyrir alla
- Skattleggjum hin ríku
Myndin er af mótmælunum í Manchester.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga